Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 91. fundur,  15. júní 2022.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

332. mál
[12:21]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég greiði atkvæði með þessari breytingartillögu sem felur í sér að Kjalölduveita og Héraðsvötn í Skagafirði verði í verndarflokki eins og verkefnisstjórnin leggur til. Mig langar af því tilefni að rifja upp ummæli hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur í umræðum um rammann á Alþingi árið 2017, með leyfi forseta:

„Að sjálfsögðu er margt gott í þeirri áætlun sem nú er lögð óbreytt fram frá fyrra þingi, þá sérstaklega hvað varðar verndarflokkinn, og kemur kannski ekki á óvart að ég fagni því sérstaklega. Ég horfi þá til að mynda til Skjálfandafljóts, Skaftár og fleiri þátta, og Norðlingaölduveitu sem hefur talsvert verið til umræðu í þessum sal á undanförnum árum. Og svo auðvitað jökulvötnin í Skagafirði.“

Ég hvet hæstv. forsætisráðherra til að fylgja afstöðu þingmannsins Katrínar Jakobsdóttur. Hún hafði margt til síns máls. Þetta er mikilvægt mál. Hér gefst tækifæri til að fylgja hennar ákvörðun, hennar sannfæringu árið 2017. Það er ekki svo langt síðan. Það er verið að leggja til mjög mikilvægar breytingar.

Ég segi já og hvet alla til að gera það.