Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 91. fundur,  15. júní 2022.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

332. mál
[12:27]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Þessi tillaga meiri hluta spratt eiginlega eins og skrattinn úr sauðarleggnum hér fyrir viku eftir að við höfðum reynt að ráða í þokuna sem var í kringum stjórnarliða inni í umhverfis- og samgöngunefnd síðustu mánuði. Loksins komu þeir sér saman um málamiðlun og það er rétt að hafa í huga í hverju hún felst. Hún felst í því annars vegar að það er látið undan virkjunarsinnum með því að leyfa biðflokkun á tveimur svæðum, Héraðsvötnum og Kjalölduveitu, með falsrökum, með þeim rökum að þetta hafi verið eitthvað óljós flokkun í vernd. Þetta var bara fullkomlega góð flokkun. Hins vegar er einhver svona sýndardúsa upp í náttúruverndarsinna að færa Skrokköldu og tvær virkjanir í Þjórsá með sömu rökum og þau eru ekki til í að færa Hvalárvirkjun og virkjunina í Þjórsá, sem eru í mestri hættu. Ég ætla að vona að fólk sem ber hag Þjórsár sérstaklega fyrir brjósti fylgist með þessari afgreiðslu og átti sig á því að í því skjóli sem stjórnarliðar láta eins og sé verið að gefa Þjórsá með þessari tillögu er ekkert skjól. Þetta er bara plat.