Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 91. fundur,  15. júní 2022.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

332. mál
[12:31]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Í gær heimsóttu okkur náttúruverndarsinnar og gáfu okkur svona nælu, við erum sum með hana. Þetta er næla sem sýnir fossinn Dynk sem meiri hluti stjórnarflokkanna vill athuga hvort sé ekki bara allt í lagi að þurrka upp með Kjalölduveitu. Það er hin pólitíska málamiðlun sem ekki tengist neinum raunverulegum gögnum eða faglegum sjónarmiðum sem hafa komið fram í þinglegri meðferð. Þetta er þungur dagur fyrir fólkið sem við hittum í gær sem biðlaði til okkar að gera betur við afgreiðslu rammaáætlunar. Þetta er þungur dagur fyrir fólkið sem í hálfa öld hefur verið að berjast fyrir verndun Þjórsárvera gegn ofurefli og átti þó gjarnan vísan bakhjarl í stjórnmálahreyfingum sem tóku náttúruvernd upp á sína arma. (Forseti hringir.) En ég held að þeim hreyfingum hafi fækkað um eina í dag.