Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 91. fundur,  15. júní 2022.

stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki.

569. mál
[13:14]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Við erum hér að leggja til að endurgreiðsluhámarkið haldist óbreytt frá því bráðabirgðaákvæði sem fyrir er í lögunum. Ég er þeirrar skoðunar að nýsköpunarfyrirtæki á íslenskum markaði hafi haft réttmætar væntingar til þess að þetta hámark héldist óbreytt. Því leggur 2. minni hluti fram þessa breytingu og hv. þm. Ásthildur Lóa Þórsdóttir er með mér á þessari tillögu.

Allsherjarendurskoðun á þessum málaflokki stendur fyrir dyrum. Það væri rétt að breyta þá en ekki áður en sú endurskoðun hefur átt sér stað, vegna þess að það sem allir umsagnaraðilar kölluðu eftir var stöðugleiki og að þessum stöðuga hringlandahætti með löggjöfina yrði hætt.

Síðan vil ég minna á að þótt vissulega sé ágætt að verið sé að framlengja þetta um ár, þ.e. endurgreiðsluhlutfallið, þá er það bara eitt ár. Ég minni á það að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er talað um að endurgreiðsluhlutfallið verði gert varanlegt — það er ekki framlenging á bráðabirgðaákvæði, svona til að auka á lesskilning.