Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 91. fundur,  15. júní 2022.

virðisaukaskattur.

679. mál
[13:20]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Flokkur fólksins styður orkuskiptin en getur ekki með nokkru móti stutt frekari ívilnanir til þeirra sem hafa yfir nægu fé að ráða fyrir rafmagnsbifreiðum á meðan hægt væri að nýta þær tekjur sem annars renna í ríkissjóð til að styðja við þá hópa sem höllustum fæti standa í því ástandi sem nú varir. 5,5 milljarðar er meira en mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar gegn verðbólgu fyrir lágtekjuhópa, sem kynntar voru með pompi og prakt fyrir skömmu, munu kosta. Verðmiðinn á aðgerðum fyrir lágtekjuhópa er 4,7–5,2 milljarðar. Þeir sem hafa efni á rafbílum fá 5,5 milljarða. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar fyrir þau heimili sem verst standa hafa verið í mýflugumynd en hér er, í nafni pólitískrar stefnu, verið að afhenda þeim sem standa það vel að geta keypt sér rafmagnsbíl fyrir um 5 milljónir, 5,5 milljarða. Þótt markmiðið sé gott er þessi forgangsröðun í ljósi þeirra aðstæðna sem uppi eru algerlega kolröng. Flokkur fólksins mun því ekki styðja 2. gr. frumvarpsins.