Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 91. fundur,  15. júní 2022.

virðisaukaskattur.

679. mál
[13:21]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Þingflokkur Pírata styður þetta mál en leggur til nokkrar breytingar á því sem ég ætla að gera grein fyrir hér. Í fyrsta lagi erum við að leggja það til að stíga skref í átt að réttlátari umskiptum í orkuskiptum með því að bæta metanbifreiðum inn í þá bifreiðaflokka sem njóta þessarar ívilnunar. Það er vegna þess að þetta eru ódýrari bifreiðar sem eru aðgengilegri lægri tekjutíundum. Við höfum séð, í þeim gögnum sem liggja fyrir í þessu máli, að það er helst ríkasta fólkið í landinu sem hefur efni á því að kaupa sér nýjan rafbíl og njóta þannig þessarar endurgreiðslu. Nýir metanbílar eru miklu ódýrari. Þar að auki erum við að leggja til skynsamlegri ráðstöfun þessa kvóta á endurgreiðslu með því að þrepaskipta þessu þannig að ef fjölskylda eða einstaklingur á einn bíl fyrir fái hann einungis hálfa endurgreiðslu. Ef fjölskylda eða einstaklingur á tvo eða fleiri bíla fyrir þá fái hann ekki endurgreiðslu. Við erum heldur ekki að styrkja það að fjölskyldur eða einstaklingar séu að kaupa sér jafnvel þriðja, fjórða eða fimmta bíl með afslætti frá ríkinu. (Forseti hringir.) Það á ekki að vera tilgangurinn með slíkum niðurgreiðslum og er ekki í anda orkuskipta að gera það.