Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 91. fundur,  15. júní 2022.

stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2022--2036.

563. mál
[16:19]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Ingibjörg Isaksen) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir hönd meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar fyrir nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2022–2036.

Nefndin fjallaði um málið, fékk á sinn fund gesti og bárust umsagnir líkt og greint er frá í nefndarálit sem liggur frammi.

Nefndin fjallaði almennt um byggðaáætlun en samkvæmt lögum um byggðaáætlun og sóknaráætlanir skal áætlunin skal lýsa stefnu ríkisins í byggðamálum hverju sinni og samhæfingu við aðra stefnumótun og áætlanagerð hins opinbera. Meiri hlutinn telur jákvæðar breytingar hafa orðið á byggðaáætlun frá samþykkt laganna árið 2015, sem m.a. felast í auknu samráði og samhæfingu. Lögð er áhersla á að mæla árangur af áætluninni og eru í fyrirliggjandi tillögu í fyrsta sinn settir fram níu árangursmælikvarðar til að meta framgang þeirra þriggja markmiða stjórnvalda í byggðamálum sem kveðið er á um í lögum um byggðaáætlun og sóknaráætlanir. Auk þess eru sérstakir árangursmælikvarðar settir fram við einstakar aðgerðir. Í fyrsta sinn eru aðgerðir í byggðaáætlun tengdar við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og eftir atvikum við aðrar opinberar stefnur og áætlanir. Telur meiri hlutinn þessar nýjungar auka skýrleika byggðaáætlunar og auðvelda eftirfylgni með henni.

Líkt og fram kemur í greinargerð tillögunnar var samráð við gerð tillögunnar víðtækt, m.a. voru haldnir fundir með öllum ráðuneytum, fundað með öllum landshlutasamtökum sveitarfélaga og náið samráð viðhaft við Samband íslenskra sveitarfélaga. Þá var samráðsferli á vef Byggðastofnunar auk samráðs í samráðsgátt stjórnvalda. Gestir nefndarinnar lýstu almennt mikilli ánægju með samráðsferlið. Meiri hlutinn telur fyrirkomulag samráðs við gerð byggðaáætlunar hafa verið til fyrirmyndar en hvetur til að ný byggðaáætlun verði kynnt sérstaklega fyrir nýjum sveitarstjórnarfulltrúum hið fyrsta. Fram kom á fundi nefndarinnar með fulltrúum innviðaráðuneytis að slík kynning verður haldin í haust og kallað eftir sjónarmiðum heimamanna í öllum landshlutum.

Nefndin fjallaði um fjármögnun byggðaáætlunar en á fundum nefndarinnar komu fram töluverðar áhyggjur af henni. Líkt og fram kemur í töflu með niðurbroti á ramma fjármálaáætlunar 2022–2026 fremst í tillögunni verða framlög til byggðaáætlunar tæpir 3,3 milljarðar kr. til þessara 36 aðgerða sem tiltekið fjármagn er ætlað til af byggðalið. Þess utan koma framlög til flutningsjöfnunarsjóðs olíuvara. Í greinargerðinni kemur jafnframt fram að flestar aðgerðirnar eru fjármagnaðar með framlagi úr öðrum málaflokkum og stuðningur byggðaáætlunar því aðeins hluti af heildarfjármögnuninni. Meiri hlutinn tekur undir sjónarmið þess efnis að mikilvægt sé að tryggja fulla fjármögnun byggðaáætlunar en bendir jafnframt á að bæta mætti upplýsingagjöf um heildarfjármögnun einstakra verkefna og áætlunarinnar í heild sinni.

Nefndin fagnar sérstaklega aukinni samhæfingu byggðaáætlunar við loftslagsmál. Meiri hlutinn fagnar því að í tillögunni sé að finna beinar aðgerðir á sviði loftslagsmála. Má þar annars vegar nefna aðgerð sem hefur það að markmiði að móta heildræna nálgun á aðlögun sveitarfélaga að áhrifum loftslagsbreytinga og hins vegar aðgerð sem hefur það að markmiði að binding kolefnis verði aukin og dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda frá landi með breyttri landnotkun.

Auk þess fjallaði nefndin um jöfnun flutningskostnaðar og orkukostnaðar. Fram kom sú gagnrýni að ekki væri að finna sérstakar aðgerðir í áætluninni til jöfnunar flutningskostnaðar og ekki væri gert ráð fyrir auknum framlögum til málaflokksins samkvæmt fjármálaáætlun. Meiri hlutinn bendir á að um jöfnun flutningskostnaðar fer samkvæmt lögum um svæðisbundna flutningsjöfnun, nr. 160/2011, og eru henni markaðir fjármunir í fjármálaáætlun. Tekur meiri hlutinn því undir það mat ráðuneytisins að ekki sé þörf á að hafa hana sem sérstaka aðgerð í byggðaáætlun. Gerðar voru athugasemdir við að ekki séu lagðar til markvissar aðgerðir í jöfnun orkukostnaðar í dreifbýli. Meiri hlutinn bendir á að í fyrirliggjandi áætlun er að finna áherslu um jöfnun orkukostnaðar heimila undir markmiði A, um jöfnun aðgengis að þjónustu. Þá er í aðgerðaáætlun tillögunnar í aðgerð A.2. kveðið á um jöfnun orkukostnaðar. Markmið þeirrar aðgerðar er að orkukostnaður í dreifbýli og þéttbýli verði jafnaður, bæði hvað varðar dreifingu á raforku og húshitunarkostnað.

Þá fjallaði nefndin um heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni. Meiri hlutinn fagnar sérstaklega aðgerð A.3. um bráðaviðbragð neyðarþjónustu. Neyðarþjónusta verði bætt og öryggi aukið um land allt, m.a. með því að greina viðbragðstíma neyðarþjónustu og kortleggja stöðuna til að unnt verði að stytta tímann. Það sama á við um aðgerð A.6. um aðgengi að sérfræðiþjónustu á heilbrigðissviði. Markmið hennar er að jafna aðgengi að ýmiss konar sérfræðiþjónustu óháð búsetu. Meiri hlutinn áréttar að öruggur aðgangur allra landsmanna að heilbrigðisþjónustu eru grundvallarmannréttindi og forsenda búsetuöryggis. Meiri hlutinn leggur því áherslu á að við þá vinnu sem fram undan er, hvort sem er við framkvæmd byggðaáætlunar eða gerð þeirrar næstu, skuli leggja áherslu á að bæta gæði og aðgengi að heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni.

Meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar leggur til nokkrar breytingar á tillögunni: Í fyrsta lagi er lögð til breyting er varðar eflingu rannsókna og vísindastarfsemi. Fram komu athugasemdir um að í tillögunni væri engin áhersla lögð á rannsókna og vísindastarfsemi en í gildandi byggðaáætlun væri að finna lið um eflingu rannsókna og vísindastarfsemi. Meiri hlutinn telur mikilvægt að efla slíka starfsemi á landsbyggðinni og leggur til að við markmið A. um að jafna aðgengi að þjónustu bætist nýr liður með áherslu þess efnis. Í öðru lagi er lögð til breyting er varðar landbúnað. Bent var á að ef raunverulega eigi að styðja við byggð sé nauðsynlegt að styðja við landbúnaðinn þar sem hann geti verið hryggjarstykki í samfélögum á landsbyggðinni. Meiri hlutinn tekur undir mikilvægi slíks stuðnings og leggur því til að við markmið C. um að stuðla að sjálfbærri þróun byggða um land allt bætist nýr liður um að stuðningur við landbúnað sem mikilvægan hluta af fæðuöryggi og grunnþátt í búsetumynstri í landinu verði efldur.

Að lokum er lögð til breyting varðandi nýja aðgerð um græna iðngarða. Fram kom í umsögn Landsvirkjunar að aukin áhersla á loftslagsmál og sjálfbærni geti haft mikil og jákvæð áhrif á samkeppnisstöðu Íslands, t.d. þegar komi að starfsemi sem byggist á nýtingu endurnýjanlegra staðbundinna auðlinda. Það sé því mikilvægt að í byggðaáætlun sé horft heildrænt á þau tækifæri sem sú þróun leiði af sér, m.a. tækifæri til atvinnuþróunar sem styðji við byggðaþróun. Meiri hlutinn telur brýnt að styðja við og nýta betur tækifæri til uppbyggingar grænnar atvinnustarfsemi sem byggist á svæðisbundnum styrkleikum. Leggur meiri hlutinn því til áðurnefnda nýja aðgerð um græna iðngarða.

Þá eru lagðar til minni háttar breytingar sem þarfnast ekki sérstakrar umfjöllunar. Vísast að öðru leyti til ítarlegri umfjöllunar um breytingartillögur í nefndarálitinu.

Að framansögðu virtu leggur meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar til að tillagan verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð hefur verið grein fyrir.

Undir nefndarálitið rita, auk þeirrar sem hér stendur, hv. þingmenn Vilhjálmur Árnason, Bjarni Jónsson, Helga Vala Helgadóttir, Njáll Trausti Friðbertsson, Orri Páll Jóhannsson og Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir.