Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 91. fundur,  15. júní 2022.

stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2022--2036.

563. mál
[16:30]
Horfa

Hilda Jana Gísladóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að fagna því að stefnumótandi byggðaáætlun til 15 ára og aðgerðaáætlun til 5 ára fari núna loksins fyrir þingið. Ég held að við flest höfum átt von á því að þær færu fyrir þingið fyrir síðustu alþingiskosningar, enda var frestur til að skila inn umsögn um hvítbókina til og með 31. mars 2021.

Að því sögðu hafa verið lagðar fram hér jákvæðar breytingar varðandi eflingu rannsókna og vísindastarfsemi, stuðning við landbúnað og endurnýjanlega orku. Byggðaáætlun og aðgerðaáætlun hennar er líklega mikilvægasta leiðarljósið okkar í byggðamálum og á það við alla flokka stefnunnar, þ.e. að jafna aðgengi að þjónustu, jafna tækifæri til atvinnu og stuðla að sjálfbærri þróun um land allt. Það sem gerir hana jafn öfluga og raun ber vitni er í mínum huga það mikla og góða samráð og samstarf sem viðhaft er við gerð stefnunnar sem og við eftirfylgni hennar.

Byggðaáætlun er nátengd starfi landshlutasamtaka sveitarfélaga en þess má geta að þau eru nefnd til sögunnar alls 39 sinnum í umræddri stefnu og meðfylgjandi aðgerðaáætlun. Þá eru stærstu einstöku verkefni aðgerðaáætlunarinnar, þ.e. sértæk verkefni sóknaráætlanasvæða og brothættar byggðir, að stórum hluta á borði landshlutasamtaka.

Það vekur því sannarlega furðu að á sama tíma og landshlutasamtökunum er færð aukin ábyrgð og skyldur í stefnumótandi byggðaáætlun, auk þess sem þeim hafa verið færð verkefni í kjölfar niðurlagningar Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, lækki framlög ríkisvaldsins til landshlutasamtakanna og sóknaráætlana verulega. Það verður að teljast í hrópandi ósamræmi við stjórnarsáttmálann þar sem fram kemur að landshlutarnir verði efldir, m.a. í gegnum sóknaráætlanir landshluta.

Vonandi stendur þó enn til að skýra lagalega stöðu landshlutasamtakanna gagnvart þeim verkefnum sem þau sinna. Það eru ómæld verðmæti fólgin í sértækum verkefnum sóknaráætlanasvæða, ekki aðeins það fjármagn sem sett er í verkefnin heldur felast líka mikil verðmæti í verklaginu sjálfu sem er valdeflandi fyrir fólk um land allt. Tilgangur þeirra er að færa heimafólki aukna ábyrgð á ráðstöfun fjármuna sem sóknaráætlanir eru tengdar við og hvetur það til aukins samstarfs og samráðs innan landshlutanna meðal ólíkra haghafa og heimafólk fær tækifæri til að leita leiða til að takast á við áskoranir samtímans og framtíðarinnar auk þess að horfa til lausnamiðaðrar sóknar.

Ég tel sérstaklega ástæðu til að vekja athygli á lið C4 sem kallast borgarstefna, en markmið þeirrar aðgerðar er að stærstu þéttbýlissvæðin verði efld og samkeppnishæfni þeirra og hlutverk í byggðaþróun landsins verði styrkt. Með hliðsjón af vinnu starfshóps um mótun höfuðborgarstefnu og starfshóps um svæðisbundið hlutverk Akureyrar verði mótaðar stefnur sem annars vegar skilgreini hlutverk Reykjavíkur sem höfuðborgar og stuðli að aukinni alþjóðlegri samkeppnishæfni höfuðborgarsvæðisins og hins vegar hlutverk við uppbyggingu Akureyrar sem svæðisborgar sem geti boðið upp á aukna fjölbreytni í þjónustu, menningu og atvinnutækifærum. Ég bind miklar vonir við að það verði spýtt í lófana í þessari vinnu og að umræddar stefnur muni liggja fyrir fyrr en síðar.

Þá fagna ég því að sjálfsögðu að nú komi fram í byggðaáætlun að skipan í opinberar stjórnir, ráð, nefndir og starfshópa endurspegli búsetudreifingu í landinu. Ég hef nú þegar óskað eftir og fengið svör ráðherra í flestum tilfellum um það hvernig þessu er háttað nú og eigum við því nú núllpunktagreiningu sem einfalt verður að nýta til að fylgjast með árangri.

Að lokum vil ég nefna að ég tel að það séu aukin tækifæri til að nýta byggðaáætlun, sóknaráætlanir og landshlutasamtökin sérstaklega í jafnréttismálum. Líkt og fram kemur í stöðuskýrslu Stjórnarráðsins, Kortlagning kynjasjónarmiða, frá árinu 2021, er enn töluverður mismunur á stöðu kynjanna og má þar nefna í tengslum við byggðamál að rannsóknir sýna að brottflutningur kvenna sé eitt sterkasta einkenni samfélaga í vanda en utan höfuðborgarsvæðisins eru konur víðast hvar færri en karlar. Jafnréttismál og byggðamál eru því sannarlega samtvinnuð og að mínu mati ætti að leggja meiri áherslu á þá samtvinnun jafnréttis og byggðamála í byggðaáætlun. Að því sögðu er það gleðiefni að aðgerð um atvinnuþátttöku og tekjumun eftir búsetu sé að finna í aðgerðaáætlun og ekki síst mikilvægar aðgerðir í tengslum við atvinnu og byggðastefnu þar sem gera á greiningu á áhrifum kynskipts vinnumarkaðar á landsbyggðinni.

Valdefling heimafólks í landshlutunum og verklagið sem stuðlar að samstarfi og samvinnu er í mínum huga eitt það verðmætasta við byggðaáætlun og aðgerðaáætlun hennar. Að því sögðu er það auðvitað miður að jafn margar aðgerðir og raun ber vitni séu ekki fjármagnaðar með skýrum hætti sem veikir að sjálfsögðu heildarverkfærin og minnkar líkurnar á árangri. Að því sögðu vil ég þó segja að ég hef trú á byggðaáætlun og ég tel að mikilvægt sé að halda áfram bæði vinnu við stefnumótunina og aðgerðirnar.