Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 91. fundur,  15. júní 2022.

meðferð sakamála og fullnusta refsinga.

518. mál
[16:56]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Frú forseti. Mig langar að segja nokkur orð um þetta mál sem hér er til meðferðar og búið að vera til meðferðar hjá allsherjar- og menntamálanefnd um frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð sakamála og lögum um fullnustu refsinga þar sem er verið að bæta réttarstöðu brotaþola fatlaðs fólks og aðstandenda. Þetta er auðvitað brýnt mál, mjög brýnt mál, og ég kann hæstv. ráðherra þakkir fyrir að koma með það inn í þingið. Ég er sömuleiðis mjög ánægður með það hvernig nefndin tók á því, þó kannski, eins og stundum er, í smá tímapressu. Við erum búin að vera að reyna að finna leiðir lengi til að bæta kerfið okkar og þá erum við að tala um allt frá broti til loka refsingar, að það sé allt mannúðlegt, þolendavænt sanngjarnt og skilvirkt án þess að það dragi úr eða varpi fyrir róða þeim mannréttindum sem sakborningar og dæmdir menn eiga að njóta.

Ég vil nefna alla þessa þætti hérna því að þó að við séum núna að fjalla um meðferð mála hjá lögreglu og dómstólum þá skiptir auðvitað ekki síður máli að það sem tekur við fyrir þann sem er dæmdur sé rétt og sanngjarnt og mannúðlegt, því að það minnkar svo aftur líkur á að sami einstaklingur brjóti aftur af sér. Þetta getum við gert með því að gera fangelsin okkar mannúðlegri og leggja meiri áherslu á betrun. Ég vil reyndar halda því fram að það sé býsna skilvirk leið til þess að fækka brotaþolum í framtíðinni út af þessum vítahring endurtekinna brota sem við þekkjum vel. En þetta er kannski smá útúrdúr en mikilvægt að nefna þetta hér engu að síður.

Ég, eins og margir aðrir, hef lengi klórað mér í kollinum yfir því að við séum með þetta kerfi hérna á Íslandi sem hefur í gegnum tíðina verið eins erfitt brotaþolum og raun ber vitni. Við höfum ekki þurft að vera að fylgjast lengi eða ítarlega með fjölmiðlum eða á samfélagsmiðlum til að sjá mörg dæmi um það frá fyrstu hendi. Við erum að fylgjast með frásögnum fólks sem fer í gegnum þetta kerfi og upplifir þá meðferð í raun og veru eins og annað brot. Með öðrum orðum, það verður einhver fyrir alvarlegu broti með tilheyrandi skaða og síðan er það oft einhvers konar viðbótarskaði sem virðist fylgja því að fara í gegnum þetta allt saman hjá lögreglu og dómstólum. Eftir þessum röddum hljótum við að hlusta, við hljótum að taka mark á þeim og reyna að gera allt sem í okkar valdi stendur til að bæta úr. Þess vegna fagna ég því auðvitað að við fáum tækifæri til þess að skoða þetta mál og fara í gegnum það.

Það er auðvitað búið að gera talsvert til að bæta úr, enda hefur orðið gríðarleg hugarfarsbreyting í þessum málum eins og við þekkjum. Það hefur auðvitað ekki bara náð út á meðal fólks, það hefur auðvitað að einhverju leyti náð inn í löggæslu, saksókn og dómstóla, skárra væri það nú. En það er engu að síður þannig að fólki finnst þetta ganga of hægt og við erum enn að fá frásagnir þolenda sem benda okkur á að talsvert skorti enn upp á. Umsagnirnar sem bárust í þessu máli eru auðvitað einn vitnisburður um það. Við getum nefnt umsögn Aflsins, þar sem saman koma Femínistafélag Háskóla Íslands, Kvenfélagasamband Íslands, Kvennaráðgjöfin, Kvenréttindafélag Íslands, Öfgar, Rótin, Samtök um kvennaathvarf, Stígamót, UN Women á Íslandi og W.O.M.E.N. Í þeirri umsögn segir til að mynda:

„Þolendur kynferðisofbeldis og kynbundins ofbeldis hafa lengi kallað eftir róttækum breytingum á réttarkerfinu. Iðulega upplifa þau sig sett til hliðar og að málsmeðferðin komi þeim einfaldlega ekki við. Hin formlega staða vitnis í málinu undirstrikar þessa upplifun brotaþola og í raun staðfestir hana. Mikilvægt er að brotaþoli fái aðilastöðu í málinu, ekki síður á grundvelli hugmyndafræði en vegna lagaréttinda. Þegar manneskja er beitt ofbeldi er tekið af henni allt vald yfir eigin líkama og afmennskunin er algjör. Að upplifa áframhaldandi útskúfun í réttarkerfinu, í stað þess að fá eitthvað af valdinu til baka, er alls ekki til þess fallið að færa brotaþola réttlæti.“

Þetta er auðvitað býsna kröftug umsögn. Annað verður ekki sagt. Það er auðvitað þannig að það eru margir sem myndu kannski vilja ganga lengra eða fara aðra leið en verið er að fara í þessu máli. Mig langar þó alla vega að gera grein fyrir þeim sjónarmiðum sem komu fram af því að ég skil þetta ákall alveg gríðarlega vel. Þar er verið að fjalla um, eins og ég vitnaði til, stöðu brotaþola í málinu, þ.e. aðilastöðuna, að vera ekki vitni í eigin máli heldur aðili máls. Það er allt saman skiljanlegt. En síðan kom líka fram fyrir nefndinni að það kallar yfir brotaþola miklu meiri skyldur og setur hann í aðra stöðu þegar vitnisburður hans eða skýrslugjöf er metin. Yfir þetta er farið í greinargerðinni og þar segir, með leyfi forseta:

„Þegar rætt er um brotaþola sem aðila að sakamáli má greina á milli þess sem nefna má fullkomna aðilastöðu brotaþola að sakamáli annars vegar og aðild að hluta hins vegar. Í fullkominni aðilastöðu felst að brotaþoli fær ekki einungis mjög aukin réttindi heldur tekur jafnframt á sig margar af þeim skyldum sem hvíla á ríkisvaldinu, svo sem að ákveða hvort ákæra skuli gefin út eða standa að útgáfu ákæru með ákæruvaldinu, ábyrgð á málflutningsyfirlýsingum, sækja eða láta sækja fyrir sig öll þinghöld í máli, forræði á sakarefni ásamt ákæruvaldinu og bera ábyrgð á málatilbúnaði sakamáls að öðru leyti.“

Þannig að þessum auknu réttindum fylgja líka auknar skyldur. Það er í raun og veru það sem var verið að benda á. Þetta var mikið rætt í nefndinni, einfaldlega vegna þess að við höfum mikla samúð með þeim sem vilja gera brotaþola að aðilum máls. Maður skilur báðar hliðar í þessu. Þar er auðvitað hægt að vitna þar til Finnlands og Svíþjóðar, eins og fram hefur komið. Síðan er það með öðrum hætti í Noregi en þó er þar meiri aðkoma en hér og það er kannski sú leið sem er verið að reyna að fara núna. Það eru farnar nokkrar leiðir til þess að bæta stöðuna með þessu frumvarpi. Aðgengi að gögnum er aukið. Brotaþolinn má vera viðstaddur lokað þinghald eftir að hann hefur gefið skýrslu, lagt er til að réttargæslumanni verði heimilt að beina spurningum til skýrslugjafar fyrir dómi og svo eru auðvitað fleiri atriði þar.

Í þessu máli er einnig verið að leggja til breytingar til að bæta réttarstöðu fatlaðs fólks við meðferð sakamála fyrir dómi og hjá lögreglu, ég tek undir það sem kemur fram um það, og einnig sú viðleitni að bæta réttarstöðu aðstandenda látinna einstaklinga þegar rannsókn lögreglu beinist að dánarorsök.

Ég vil því bara segja að mér finnst þetta mál vera mikið framfaraskref og styð það. En ég vil líka segja það skýrt að ef þetta dugir ekki til, að gera brotaþola sáttari eftir málsmeðferð hjá lögreglu og dómstólum, ef við höldum áfram að upplifa þetta rosalega vantraust gagnvart kerfinu okkar, ef fólk telur sig áfram vera að fá einhvers konar viðbótarrefsingu við það eitt að fara í gegnum meðferð hjá lögreglu og dómi, þá hljótum við eftir þann tíma að spyrja okkur aftur hvort leiðin sem Finnar og Svíar fara sé jafnvel betri. Við þurfum auðvitað að halda vöku okkar áfram og vera tilbúin til þess að gera enn frekari breytingar ef það má verða til þess að bæta réttarstöðu þolenda fyrir dómi og hjá lögreglu.