Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 91. fundur,  15. júní 2022.

tollalög.

9. mál
[18:14]
Horfa

Daði Már Kristófersson (V):

Forseti. Það er mjög ánægjulegt að fá að koma tvisvar sinnum í pontu til að styðja frelsismál sem hafa náð fram að ganga á Alþingi. Hér erum við náttúrlega, við mjög sérstök skilyrði, að styðja Úkraínumenn í sinni erfiðu aðstöðu með því sem skiptir kannski mestu máli á þrengingartímum, sem er að leggja okkar litla lóð á vogarskálarnar til að viðhalda gangi hjóla atvinnulífsins í Úkraínu. Viðskipti í alþjóðavæddum heimi skipta gríðarlega miklu máli og Úkraína, eins og flest ríki og eins og Ísland við sömu skilyrði, er opið hagkerfi. Úkraínumenn lifa á viðskiptum við aðrar þjóðir og eins og við gætum ekki hugsað okkur að búa við þrengingar á því sviði þá skiptir miklu máli að við sýnum í verki stuðning okkar við baráttu Úkraínumanna með því að hjálpa þeim með þeim hætti sem mestu máli skiptir, sem er að styðja við hjól atvinnulífsins þar við þau erfiðu skilyrði sem þau hljóta að búa við. Það er mikilvægt að þetta mál verði ekki stöðvað eða tafið vegna einhverra skammtímahagsmuna þröngra hópa í íslensku atvinnulífi. Jafnvel þó að hér hafi komið fram að innflutningur Íslands á landbúnaðarvörum frá Úkraínu hafi verið takmarkaður þá vil ég undirstrika að það er ekki frágangssök þótt slíkar vörur yrðu fluttar inn undir þessari heimild og raunar frekar líklegt vegna þess að Úkraína er fyrst og fremst framleiðandi og útflytjandi á landbúnaðarvörum. Við eigum ekki að láta eins og þetta sé í lagi bara vegna þess að það skerði hag einskis. Þetta væri í lagi jafnvel þótt það skerti hag einhvers vegna þess að með þessu erum við að styðja þá í þeirra erfiðu baráttu.