Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 91. fundur,  15. júní 2022.

vextir og verðtrygging og húsaleigulög.

80. mál
[18:26]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér frumvarp sem gerir ráð fyrir frystingu á verðtryggingu neytendalána, fasteignalána og leigusamningum, ef við orðum það þannig til einföldunar. Nú fengum við auðvitað fjármálaráðuneytið á okkar fund við meðferð þessa máls. Fjármálaráðuneytið tók mjög afgerandi afstöðu hvað varðar þetta frumvarp og þá aðferðafræði sem lögð er til í því. Ég held að það sé kannski álit margra að í þessu frumvarpi felist afturvirk skerðing á eignarréttindum sem gæti hreinlega bakað ríkissjóði gríðarlega skaðabótaskyldu. Ég tek eftir því, og var nú á nefndarfundinum þar sem þetta var afgreitt út, að flutningsmaður frumvarpsins er ekki með á frávísunartillögunni. Mig langar bara að spyrja framsögumann þessarar tillögu og formann efnahags- og viðskiptanefndar hvers vegna meiri hluta nefndarinnar finnst svona mikilvægt að vísa þessu máli til ríkisstjórnarinnar. Hvað vill meiri hluti nefndarinnar að ríkisstjórnin geri með þetta frumvarp? Telur meiri hluti nefndarinnar að þetta sé heppileg aðferðafræði eða að sú nálgun sem lagt er upp með í þessu frumvarpi eigi að vera einhvers konar leiðarljós í vinnu næstu vikna og mánaða þegar kemur að því að verja tekjulága og skuldsett heimili og leigjendur fyrir áhrifum verðbólgunnar?