Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 91. fundur,  15. júní 2022.

vextir og verðtrygging og húsaleigulög.

80. mál
[18:51]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og framlagið með þessu frumvarpi til umræðunnar um það hvernig sé best að taka á vanda tekjulágra og skuldugra hópa. Ég get tekið undir markmið frumvarpsins en hef ákveðnar efasemdir um að þetta sé endilega rétta aðferðafræðin og þær athugasemdir sem komu fram á fundinum með fjármálaráðuneytinu komu mér ekki á óvart.

Ég stóðst ekki mátið að stríða aðeins meiri hluta nefndarinnar hérna áðan af því að einhvern veginn æxlaðist það þannig að meiri hluti nefndarinnar er á þessu áliti um að vísa þessu frumvarpi til ríkisstjórnarinnar. Auðvitað vita allir í þessum sal að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Vinstri grænna er ekki að fara að grípa til aðgerða sem væru neitt í líkingu við þær sem eru lagðar til í þessu frumvarpi. Auðvitað vitum við það öll. Þess vegna fannst mér pínu kjánalegt þegar þetta var afgreitt svona út úr nefndinni. Það hefði kannski bara verið heiðarlegra að greiða atkvæði um þetta mál hér í þingsal, með eða á móti, frekar en að afgreiða það með þessum hætti.

En það verður auðvitað fróðlegt að sjá, og ég hugsa að við getum bara sameinast um það að fylgja því eftir í nefndinni, að ríkisstjórnin geri þá eitthvað með þetta. Það væri fróðlegt, eins og hv. þm. Ásthildur Lóa Þórsdóttir nefndi hérna áðan, að fá t.d. kostnaðargreiningu vegna þessarar skaðabótaskyldu sem fjármálaráðuneytið telur að muni þarna bakast og kannski áhrifagreiningu almennt á inngripum af þessu tagi og kannski einhvers konar yfirferð yfir fordæmi um svona lagað, það væri auðvitað fróðlegt. En ég segi enn og aftur að mér hefði þótt einhvern veginn hreinlegra ef þetta frumvarp hefði bara komið til einfaldrar atkvæðagreiðslu hér í þingsal, já, nei eða sit hjá, um það hvort þetta yrði að lögum eða ekki. Þá hefði verið fróðlegt að sjá afstöðu flokka.

Í þessu frumvarpi eru lagðar til ákveðnar aðgerðir fyrir leigjendur og við í Samfylkingunni höfum gagnrýnt harðlega algjört sinnuleysi gagnvart leigjendum. Ég vil kannski nota tækifærið hér í umræðu um þetta mál til að benda á það sem við höfum nú tönnlast svolítið á hérna í þingsal undanfarna mánuði, að það á enn eftir að uppfylla þau fyrirheit sem voru gefin við undirritun lífskjarasamninga 2019 af hálfu ríkisstjórnarinnar þá, sem var með umboð frá stjórnarmeirihluta sömu flokka og eru núna að stjórna landinu. Þar voru gefin mjög skýr fyrirheit um einhvers konar leigubremsu. Svoleiðis leigubremsa þarf auðvitað að vera útfærð eftir einhverjum fyrirsjáanlegum leikreglum og það þarf að greina vel hvernig best er að haga framkvæmdinni á henni. Í þessu frumvarpi er auðvitað lagt til eitthvað í þá áttina þannig að að því leyti er gagnlegt að fá þessa umræðu þarna inn.

Eins og ég nefndi hefur ekkert bólað á leigubremsu sem í rauninni var lofað í lífskjarasamningunum. Það kom hér inn hins vegar frumvarp um breytingu á húsaleigulögum sem mætti líta á sem kannski undanfara einhverra meira afgerandi breytinga á húsaleigulögum sem gætu þá falið í sér einhvers konar leigubremsu. Þetta er frumvarp sem snýst bara um skráningarskyldu á leigusamningum og hækkun leigufjárhæðar í gagnagrunn hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Þetta er frumvarp sem gengur alveg ofboðslega skammt og er auðvitað ekkert í líkingu við þau í rauninni stóru loforð sem koma fram í viljayfirlýsingu ríkisstjórnarinnar vegna lífskjarasamninga. Það hefði engu að síður verið ágætt að ná að afgreiða það út á þessu þingi. Verkalýðshreyfingin hefur kallað mjög eftir því. Ég hélt satt best að segja það hefði náðst einhvers konar samstaða um að þetta væri eitt af þeim málum sem stjórnarmeirihlutinn ætlaði líka að reyna að koma í gegn fyrir þinglok. En nú veit ég ekki til þess að þetta mál sé komið út úr velferðarnefnd þannig að meira að segja þetta útvatnaða frumvarp kemst ekki út úr þinginu, heldur ekki auðvitað breytingarnar á starfskjaralögum sem fela í sér aðgerðir gegn launaþjófnaði sem var líka lofað þegar lífskjarasamningarnir voru undirritaðir. Mér finnst óttalega dapurlegt ef ríkisstjórnin ætlar meira að segja að drepa þessi litlu hænuskref sem geta orðið einhvers konar undanfari að frekari réttarbótum fyrir fólk sem er að hrekjast um á leigumarkaði.

Að lokum, vegna þess að þessu frumvarpi er ætlað að taka á stöðu skuldsettra heimila, vil ég nefna að það þarf bæði að huga að þeim sem eru með verðtryggð og óverðtryggð lán. Ég saknaði þess alveg sérstaklega þegar ríkisstjórnin kynnti sínar mótvægisaðgerðir fyrir nokkrum vikum og þær voru samþykktar að þar var í rauninni ekki tekið með neinum hætti á stöðu tekjulágs ungs fólks, t.d. fyrstu kaupenda sem komust kannski inn á fasteignamarkaðinn við bara mjög óvenjulegar aðstæður þegar vextir voru sögulega lágir. Þetta fólk er núna í alveg gríðarlegum vandræðum vegna þess hvernig verðbólga hefur þróast og hvernig Seðlabankinn hefur brugðist við henni með mjög skörpum stýrivaxtahækkunum. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra í bili en ég þakka fyrir góða umræðu.