Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 91. fundur,  15. júní 2022.

vextir og verðtrygging og húsaleigulög.

80. mál
[21:38]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við göngum hér til atkvæða um tímabundna frystingu verðtryggingar á lánum og leigu. Í tilefni af umræðu um þetta mál hér í þingsal fyrr í dag vil ég koma því á framfæri að með breytingartillögu í nefndaráliti mínu er lagt til að gildistaka frystingarinnar færist frá síðustu áramótum fram til 1. júlí nk. Með því er tryggt að ekki sé um neina afturvirkni að ræða. Við það vil ég bæta að staðan er grafalvarleg og mig langar að trúa því að ríkisstjórnin taki þetta frumvarp alvarlega og fjalli um það af alvöru með þarfir og framtíðarsýn heimilanna í huga í stað þess að einblína eins og yfirleitt áður á hagsmuni fjármálafyrirtækja og kalli svo Alþingi saman til að klára málið. Alþingi hefur verið kallað saman af minna tilefni en því neyðarástandi sem er að skapast hjá heimilum landsins sem er ekki útlit fyrir að lagist í bráð. Ég hef staðið í þeim sporum að vera við það að missa heimili mitt og að lokum missa það. Ég bið ríkisstjórnina þess lengstra orða að hlífa þúsundum heimila í viðbót við að ganga í gegnum skelfinguna sem því fylgir. Ég bið ríkisstjórnina að bjarga heimilunum.