152. löggjafarþing — 92. fundur,  15. júní 2022.

skaðabótalög.

233. mál
[23:32]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Frú forseti. Þetta er stór dagur og ég vona svo sannarlega að það fylgi þessum stuðningi út úr nefndinni að meiri hlutinn muni greiða atkvæði með þessu máli og ég trúi því að svo verði. Það er lögbundið í málum af þessu tagi, hvort tveggja kynferðisofbeldismálum og heimilisofbeldismálum, að brotaþoli á rétt á því að fá sér til liðsinnis réttargæslumann í sakamálum sem fylgir brotaþola í gegnum allt ferlið. Þetta er gríðarlega erfiður málaflokkur og það er einn einstaklingur sem fylgir brotaþola frá því að brotaþoli tilkynnir um brot og allt til lúkningar máls í dómi ef málið kemst það langt. Hins vegar er það svo að málin komast því miður sjaldnast svo langt. Þau eru langoftast felld niður á rannsóknar- eða ákærustigi og af þeim sárafáu sem komast inn fyrir dóm þá er auðvitað sýknað í fjölda mála. Þá stendur réttargæslumaðurinn frammi fyrir því að þurfa að útskýra fyrir brotaþolanum, þegar á borðinu liggur fjöldi gagna sem sýna fram á að brotið hafi verið á einstaklingi, að þetta sé ekki sönnun þess að atburðir hafi ekki gerst heldur snýst um að það hafi mögulega ekki tekist að taka af allan vafa að sakborningur hafi gerst sekur um það sem á hann er borið samkvæmt ákæru sem gefin er út af ákæruvaldi. Þetta er hinn skýri rammi sakamálalaga.

Einkamálalögin eru annars konar. Þar er einfaldlega horft á hvort meiri líkur eða minni eru á því að það sem tilgreint er í stefnu hafi átt sér stað. Sönnunarbyrðin er þannig allt annars konar í þessum málum. Það er ekki verið að refsa fólki í einkamálum en þarna er einstaklingur að leita leiða til þess að mögulega ná sátt við þennan meinta geranda sinn í sakamálinu þegar það er orðið ljóst að svo er, mögulega að fá einhvers konar lúkningu á máli eða fá viðurkenningu á því að atburðir hafi gerst. Þetta getur skipt gríðarlega miklu máli upp á framtíðarheilsu og getu einstaklings til að tengjast annarri manneskju tilfinningaböndum. Þótt ég viti að það verði ekki mörg mál sem munu á endanum fara inn í þennan farveg, að farið verði í einkamál, þá veit ég að það að liðka til getur í stöku málum, sérstaklega þessum alvarlegustu málum, skipt sköpum til framtíðar fyrir einstaklinga.

Mig langar að þakka nefndinni. Mig langar að þakka þeim fjölmörgu þingmönnum úr öllum flokkum hér á þingi fyrir að hafa flutt þetta mál með mér. Samstaðan skiptir gríðarlega miklu máli. Við þurfum ekki að hafa áhyggjur af holskeflu málshöfðanna af því að það leikur sér enginn að því að fara í dómsmál. Það er bara meira en lítil byrði að standa í því. Ég lít svo á að við séum að taka risastórt skref í þágu réttlætis fyrir brotaþola.