152. löggjafarþing — 92. fundur,  15. júní 2022.

atvinnuréttindi útlendinga.

482. mál
[23:36]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir hönd meiri hluta velferðarnefndar fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002 (einstaklingar sem flytjast til innan viðskiptafyrirtækis).

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar hvað varðar veitingu tímabundinna atvinnuleyfa til einstaklinga sem flytjast til innan viðskiptafyrirtækis með starfsstöð hér á landi. Tilgangur breytinganna er að tryggja jöfn réttindi þeirra sem hafa fengið tímabundin atvinnuréttindi óháð því hvort slík réttindi séu veitt á grundvelli fjölskyldusameiningar eða vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar. Breytingarnar eru til samræmis við stjórnarsáttmálann þar sem kemur fram að taka eigi til endurskoðunar lög um útlendinga og lög um atvinnuréttindi útlendinga. Markmið þeirrar endurskoðunar er að rýmka ákvæði er varða útgáfu dvalarleyfa á grundvelli atvinnuþátttöku og auka skilvirkni með einföldun ferla, m.a. á grundvelli sérstakra tengsla við landið eins og á grundvelli fjölskyldusameiningar og er fyrirliggjandi frumvarp til samræmis við það.

Fyrir nefndinni kom fram að innlendum störfum muni fjölga mjög mikið á næstu árum, umfram fjölgun innlends fólks á vinnualdri og þörfin fyrir innflutning erlendra starfsmanna því mikil. Meiri hlutinn tekur undir að það að mæta þurfi þessari þróun og er fyrirliggjandi frumvarp liður í því.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Undir álit meiri hlutans rita, auk þeirrar sem hér stendur, hv. þingmenn Björgvin Jóhannesson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Guðrún Hafsteinsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir, Óli Björn Kárason og Orri Páll Jóhannsson.

Virðulegur forseti. Hinn 8. júlí 2021 undirritaði utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra fyrir Íslands hönd nýjan fríverslunarsamning við Bretland. Í tillögu til þingsályktunar frá utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra um fullgildingu fríverslunarsamningsins eru listaðar upp nauðsynlegar lagabreytingar vegna fríverslunarsamnings og annarra samninga við Bretland vegna útgöngu þess úr ESB og EES. Þar kemur m.a. fram að vegna fríverslunarsamnings og annarra samninga Íslands við Bretland sé nauðsynlegt að gera breytingar á lögum um atvinnuréttindi útlendinga sem kveða á um að nánustu aðstandendum þjónustuveitenda sem starfa tímabundið á Íslandi verði gert kleift að sækja um dvalar- og atvinnuleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar. Hér eru lagðar til þær breytingar á lögum um atvinnuréttindi útlendinga sem nauðsynlegar þykja vegna framangreinds fríverslunarsamnings við Bretland og vísað er til í fyrrgreindri þingsályktunartillögu.

Virðulegur forseti. Að því sögðu ítreka ég að hér er um að ræða atvinnuleyfi til þeirra sem þegar hafa störf við starfsstöðvar erlendis en eru ekki að koma hingað í þeim tilgangi að vera í atvinnuleit. Þetta mun jafnframt nýtast erlendum aðilum sem hingað koma en Íslendingum jafnframt sem flytjast innan viðskiptafyrirtækis í útibú erlendis.