Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[10:18]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það sem ég heyri hv. þingmann segja er að við ættum að hækka skattana og stækka ríkið, auka útgjöldin. Það eru alltaf nýjar hugmyndir um nýja skatta og aukin útgjöld og það er talað til fólks eins og þeirra líf verði betra ef við bara aukum útgjöld ríkissjóðs nógu mikið. Það sé bara ekki nógu miklum fjármunum stýrt í gegnum ríkissjóð. Það er náttúrlega alið á öfund í garð þeirra sem hafa meira, sem borga hæstu skattana. Fjármagnstekjuskattur fór upp verulega og greiddir voru 16 milljarðar umfram áætlanir í fjármagnstekjuskatt á þessu ári. Það er jákvætt fyrir ríkissjóð að það sé sanngjarnt fjármagnstekjuskattskerfi sem tryggir fjárfestingu sem á endanum skapar arð sem verður skattlagður. Það er bara jákvætt.

Sveitarfélögin eru hliðstætt stjórnvald við ríkið og eru sjálfstæð um sín fjármál. Þau eru ekki á einhverri vöggudeild ríkisstjórnarinnar, það er bara misskilningur. Það á ekki að tala þannig til ríkisstjórnarinnar, fjármálaráðherrans, um fjárlögin að við stöndum ekki nógu mikið með sveitarfélögunum sem hafa sína sjálfstæðu tekjustofna. Við erum í samtali við sveitarstjórnarstigið og sveitarstjórnarstigið verður t.d. að svara því þegar dregið hefur úr fjárfestingum í kjölfar þess að laun hafa hækkað um tæplega 30%, hvort það hafi kannski verið ástæðan fyrir því að það þrengir að fjárfestingarstiginu. Það þarf að svara því. Ef mönnum sýnist sem það þurfi að koma meira til sveitarfélaganna af heildartekjum í samfélaginu þá mun ekki standa á mér að ræða það. Ég er vel til í að ræða tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga en ég held að það sé ekki skynsamlegt að taka af þeim fjárstjórnarvaldið. (Forseti hringir.) Ég hef áhyggjur af afkomu sveitarfélaganna sem t.d. birtist núna í nýjum tölum í morgun. (Forseti hringir.) Það er mikill halli og það er ástæða til að hafa áhyggjur af honum.