Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[13:07]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans andsvar. Allan tímann höfum við sagt, og hv. þingmanni finnst það væntanlega frasi sem ég segi næst: Við ætlum að stækka út úr vandanum. Það finnst mér kannski fyrst og fremst atriðið og var að reyna að draga það fram í þeirri stuttu ræðu sem ég hélt áðan. Það er að ganga eftir með þeim hætti að hér er meiri hagvöxtur, meiri tekjur ríkissjóðs en við gerðum ráð fyrir og hér er minna atvinnuleysi sem skiptir gríðarlega miklu máli. Það er í raun og veru þungamiðjan. Mér finnst alltaf skipta máli að við séum með lítið atvinnuleysi, mikla verðmætasköpun. Það er verðmætasköpunin og hvernig við drífum verðmætasköpunina áfram sem fyrst og fremst kemur okkur upp úr þessari holu sem hv. þingmaður nefnir svo. Ég nefndi eiginlega tvö atriði sem eru rannsóknir og þróun og nýsköpun sem við sjáum núna verða burðugan framtíðaratvinnuveg. Ég nefndi orkuskiptin í þessu sambandi. Allt eru þetta þættir sem halda raunverulega áfram að stækka kökuna. Bara til að taka það fram, virðulegur forseti, þá er ég algerlega fylgjandi því að við seljum eftirstöðvar af eigum ríkisins í Íslandsbanka en það er að sjálfsögðu sjálfstæð ákvörðun þegar að því kemur þegar það söluferli verður ræst. En meginmálið er þetta: Við þurfum að halda áfram að vaxa með þeim hætti. Við vöxum ekki ef við ætlum á sama tíma að setja hærri skorður eða íþyngjandi byrðar með einhverjum öðrum hætti og flækja aukna verðmætasköpun.