Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[17:16]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til að ræða við hæstv. innviðaráðherra um alla þá mikilvægu málaflokka sem heyra undir hann þannig að maður þarf að forgangsraða hvað varðar spurningar til hæstv. ráðherra. Ég ætla að beina máli mínu að honum varðandi samgöngumálin og þá að forgangsröðun verkefna í uppbyggingu samgangna. Þar er hægt að fara nokkrar leiðir og við þurfum vissulega að hafa byggðasjónarmið og öryggissjónarmið í huga, en fyrst og fremst þjóðhagslega hagkvæmni og kostnaðarábatagreiningu. Mig langaði að spyrja hæstv. ráðherra hvernig gengi að móta einhverja stefnu og fá fram þjóðhagslega hagkvæmni og ábata af hverri framkvæmd fyrir sig. Mig langaði svo að bera það saman við fjárlögin sem við erum að fjalla um hér, þ.e. samspil forgangsröðunar verkefna og fjárveitinga. Nú hefur umhverfis- og samgöngunefnd, eins og lög gera ráð fyrir, fjallað um samgönguáætlun og samþykkt vissa forgangsröðun sem ráðherrann leggur til og þingið fer yfir og samþykkir í þingsályktunartillögu um samgönguáætlun. Sú samgönguáætlun er svo tekin og fjármögnuð í gegnum fjárlög og svo gerist það oft að það kemur viðbótarfjármagn og þá er það í gegnum fjárlaganefnd og fjárlögin sem sú forgangsröðun kemur í ljós. Þarna er mikil umræða í gangi um það hve mikið umhverfis- og samgöngunefnd á að koma að þessu viðbótarfjármagni.

Mig langar að spyrja varðandi þessa forgangsröðun: Af hverju var Reykjanesbrautin látin bíða en ekki aðrar framkvæmdir og hvenær er fyrirhugað að framkvæmdir á Reykjanesbraut hefjist?