Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[17:31]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég tók að sjálfsögðu vel í það erindi að skoða hvernig ríkisvaldið gæti stutt við Vestmannaeyjabæ á sínum tíma og það mál var tekið til skoðunar. Árið 2008 var það gert með tvennum hætti, í fyrsta lagi var felldur niður virðisaukaskattur. Að mati fjármálaráðuneytisins er það ólöglegt og ekki hægt, ekki nema að í þessum sal sé tekin slík ákvörðun. Hitt atriðið varðaði stuðning ríkisins til að greiða niður kostnaðinn svo að hann sé sambærilegur við aðra. Menn fóru og reiknuðu það út að þetta er kostnaður sem sjálfsagt er kominn í dag upp í 1,5 milljarða eða svo og það er af þeirri stærðargráðu sem mörg sveitarfélög og jafnvel minni þurfa að glíma við til þess að leita eftir vatni. Þau hafa ekki óskað eftir stuðningi frá ríkinu. Staðreyndin er sú að jafnvel þó að þetta yrði fjármagnað með 4% vöxtum, ef ég man rétt, þá myndi kostnaður á hvert heimili í Vestmannaeyjum verða í níunda sæti eða þar um bil, eitthvað á eftir Fjarðabyggð, Hvolsvelli, Árborg og fleiri slíkum sveitarfélögum. Ég verð bara að segja eins og er að ég á erfitt með að gefa slíkt fordæmi, taka einhverja slíka ákvörðun um að styðja eitt sveitarfélag ef önnur átta eða níu sambærileg eru nú þegar að borga meira fyrir sitt vatn. Þess vegna höfnuðum við þessum stuðningi. Slík ákvörðun verður þá að koma úr þessum sal, alveg sama hvað var gert 2008 og hugsanlega þá vegna annarra forsendna. Þá stefndi í að vaxtakostnaður heimila yrði meiri en góðu hófi gegndi. En það er hins vegar rétt að fyrirtækin í Eyjum borga hærra verð en mörg önnur fyrirtæki annars staðar og ákvörðun af okkar hálfu hér eða ráðuneytisins snerist þá fyrst og fremst um að niðurgreiða vatn fyrir fyrirtækin í Eyjum og ég veit ekki hvort það er nauðsynlegt.