Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[17:35]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Frú forseti. Ég vil þakka fyrir tækifærið til að ræða hér um orkuskipti og þá staðreynd að ríkisstjórnin er mjög með puttann á púlsinum hvað það varðar. Þær breytingar sem nú eru gerðar á vörugjöldum og bifreiðagjöldum — sem hv. þingmaður vísar til á þann veg að við séum að draga úr stuðningi — eru mjög litlar og fyrst og fremst er þar um að ræða sanngjarna hluti. Það er mikilvægt að í öllum þeim aðgerðum sem við grípum til höldum við áfram að hvetja til þess að fólk skipti um bíla. Það er rétt hjá hv. þingmanni að stærsta verkefnið fram undan er að komast í gegnum orkuskiptin á bílaleigunum. Síðan banka mjög fljótt upp á orkuskipti á stærri tækjum, skipum og flugvélum. Ég hef verið mjög fylgjandi því og mikill talsmaður þess að við myndum hreinlega nýta þá orku sem við höfum í landinu og bæta í orku, ekki síst vindorku, til að fara að framleiða rafeldsneyti þannig að við getum orðið sjálfum okkur nóg og haldið áfram að vera sjálfstæð þjóð hvað varðar orkuna en sitja ekki í þeirri súpu sem meginþorri Evrópubúa situr í í dag. Við erum í einstakri stöðu og við getum haldið áfram að vera það með því að framleiða þessa orku hér. Til þess þarf nokkurt áræði en þó ekki af neinni stærðargráðu í líkingu við það þegar menn ákváðu að hitaveituvæða Ísland. Þá tóku menn ákvörðun um að yfirgefa olíu, gas og kol og það er ákvörðun sem við þurfum að taka núna, fara í orkuskipti með rafeldsneyti.