Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[17:39]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Frú forseti. Það er gott tækifæri til að ræða þetta aðeins frekar. Þar sem hv. þingmaður segir að ekki hafi náðst að byggja nægjanlegan fjölda, miðað við þau áform sem menn hafi haft á sínum tíma, hlýtur hann að vera að vísa til átakshópsins 2018 og satt best að segja var byggt nægilega mikið af íbúðum miðað við þau plön sem þá voru uppi. Á árunum 2019–2020 voru, held ég, byggðar 4.500 íbúðir og hafa aldrei verið fleiri. Í þó nokkur ár hefur ríkisvaldið, þessi ríkisstjórn, verið að setja 2 milljarða í þetta, sem er einmitt tímabundið að detta út núna, þangað til við komum inn í 2. umr., til að byggja enn fleiri almennar íbúðir í því skyni að tryggja þetta.

Það sem gerðist er kannski tvennt. Annars vegar komu nýjar upplýsingar, t.d. mannfjöldaspá Hagstofunnar sem var umtalsvert brattari en áður hafði verið gert ráð fyrir, fleira fólk sem fannst og fleira fólk sem er á leiðinni hingað. Hin staðreyndin er sú að við vissum einfaldlega ekki nóg um þennan markað, hvar var verið að byggja. Hv. þingmaður þekkir það að Samtök iðnaðarins gátu veitt bestu upplýsingarnar, það var maður sem fór út og taldi húsgrunna, hvar þeir væru staddir. Við höfum verið að bæta þetta á undanförnum árum með mannvirkjaskránni, með stafrænum húsnæðisáætlunum, með því að færa fasteignaskrána yfir til HMS og nú fyrst erum við komin með nægilegar upplýsingar. Á fyrstu fundunum á þessu ári virtist það vera staðreynd að það vantaði íbúðir. Mig minnir að í aðdraganda eins fundarins hafi virst vera svo að það væru til 250 íbúðir í Reykjavík. Í ljós kom að þær voru fleiri en þær voru bara í höndunum á einhverjum verktökum og það vissi enginn nákvæmlega hvar þær voru staddar á byggingarstigi, hvort það ætti að fara að byggja þær eða ekki og það hafði enginn tök á því að komast að því. Núna erum við, hv. þingmaður, (Forseti hringir.) loksins komin með tækin og tólin til að geta farið í þessa vegferð og vonandi uppfyllt þarfirnar en þær hafa vaxið gríðarlega miðað við mannfjöldaspá Hagstofunnar.