Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[17:46]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Við deilum þessum áhuga, heyri ég, sem er gott. Á sömu nótum langar mig að spyrja ráðherra samgöngumála út í skyldu sveitarfélaga til að skrá vegi í náttúru Íslands. Á grundvelli 7. gr. vegalaga og raunar 32. gr. náttúruverndarlaga, ákvæðis sem kemur inn í lögin árið 2015, skal Vegagerðin halda skrá í stafrænum kortagrunni um vegi aðra en þjóðvegi í náttúru Íslands þar sem umferð vélknúinna ökutækja er heimil. Sveitarfélög gera tillögu að þessari skrá innan sinna marka við gerð aðalskipulags og hlýtur hún samþykki samhliða afgreiðslu aðalskipulagsins eða breytinga á því, samanber skipulagslögin. Heildstæð skrá yfir vegi í náttúru Íslands liggur ekki fyrir og fyrir tveimur árum síðan gaf Skipulagsstofnun út leiðbeiningar um gerð vegaskrár og högun og skil á gögnum.

Það er brýnt að gera gangskör í því að þetta verk klárist. Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra hvernig hann telji að styðja megi sveitarfélögin við gerð tillögu um skrár yfir vegi innan sinna marka svo hægt sé að ljúka við gerð heildstæðrar skrár yfir vegi í náttúru Íslands. Í þessu samhengi hefur verið bent á að t.d. inni á friðlýstum svæðum þar sem, tökum sem dæmi, jöklar hopa, sé eðlilega áhugi hjá þeim sem komast nær fyrirbærinu jöklinum á að lengja í veginum og/eða tryggja einhvers konar umsjón með þessum vegum. En til að hægt sé að mæta þeirri hugmyndafræði þarf vegurinn auðvitað að vera á skrá í einhvers konar umsjón. Og á meðan þessi skrá liggur ekki fyrir þá reynist sumum sveitarfélögum afar erfitt að finna út úr fjármögnun eða ábyrgð á þessum vegum. Þess vegna ítreka ég að ég tel afar brýnt að lokið sé við gerð þessarar vegaskrár.