Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[19:52]
Horfa

háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir og er mjög sammála því að mikilvægt sé að hlusta á geirann hvað varðar breytingar á þessu. En mig langar líka að nefna hér, af því að bæði er hann að tala um alþjóðasamstarf og möguleika á erlendum sjóðum og tengsl, að það er gríðarlega mikilvægt að við gætum þess að við séum að taka þátt í þeim tækifærum sem eru og þar er InvestEU gríðarlega stórt tækifæri. Við erum að vinna núna að undirbúningi til að taka þátt í því, erum að vinna að tvíhliða samningi. Það er eins konar baktryggingarsjóður með gríðarlega fjármuni sem mun leggja mesta áherslu á loftslagstengd verkefni. Það að íslensk fyrirtæki, stofnanir og sjóðir hafi aðgengi að þeim fjármunum er gríðarlega mikilvægt. Þetta verður kannski eitt stærsta og fyrsta skrefið í átt að því að efla græna nýsköpun, að gera samning við ESB um að við höfum aðgengi að sjóðnum og það gerist allt eftir góðan innanlandsstuðning. Það er lykilatriði. Við eigum að fagna þeim fjármunum sem þessi fyrirtæki eru að fá úr erlendum sjóðum eða erlendu fjármagni, hvernig sem það kemur, enda kemur það allt eftir að fyrirtækin urðu til upp úr stuðningsumhverfi nýsköpunar á Íslandi. Umhverfi hér í dag gætir þess að styðja við loftslagslausnir að miklu leyti, enda er mjög mikið af lausnunum sem eru að koma fram af því tagi, sem betur fer. Það eru enda einstaklingar og hugmyndir og nýsköpun sem munu verða það sem leysir stærstu samfélagslegu áskoranir heimsins, ekki síst í loftslagsmálum. Það var eitthvað sem ég ætlaði að koma inn á í viðbót sem ég man ekki, en ég vil nefna að við greiðum auðvitað háar fjárhæðir í þessar ESB-áætlanir, m.a. til eflingar grænni nýsköpun, sem er gríðarlega mikilvægt.