Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[20:25]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Við fáum verðlagshækkanir á þessa liði. Þær hækkanir hafa ekki verið látnar ganga út, þ.e. hækkanir á innritunargjöldum. En varðandi skólana þá er okkur nokkur vandi á höndum vegna þess að á sama tíma og við tölum um að opna reiknilíkanið og skipta fjárveitingum eftir því út frá nemendafjölda og út frá fleiri þáttum — það er landsbyggðarálag og fleira — og á sama tíma og við köllum eftir gagnsærri skiptingu á fjármununum, þá er erfitt að bregðast síðan handvirkt við ef nemendum fækkar á ákveðnum svæðum vegna þess að þá erum við ekki að skipta fjármagninu gagnsætt. Það er einmitt samtalið sem við viljum eiga við skólana núna.

Ef breytingar verða á ákveðnum svæðum er þá eðlilegt að ráðherrann sé að bregðast við og setja fjármagn inn í kannski einn skóla, tvo skóla? Við þurfum að ræða það hvaða breytingar þurfa að verða á reiknilíkaninu til að bregðast við slíkum sveiflum, jafnvel í minni skólum. Það er umræðan sem ég vil fá fram næstu 12 mánuðina, að þegar breytingar verða í ákveðnum skólum þá sé það reiknilíkanið sem eigi að geta gripið þær en ekki ráðherrann, kannski vegna þess að í einhverjum tilfellum getum við horft upp á það að ráðherra er frá ákveðnu byggðarlagi eða ákveðnu héraði og hann vill bjarga þessum skóla en ekki skólanum sem er hinum megin á landinu. Þess vegna þurfum við að taka þessa umræðu. Annað mál sem hefur líka verið til umræðu eru forföll kennara, mikil forföll kennara í smærri skólum. Sumir hafa talað um að þau séu oft það mikil að þau geti jafnvel haft veruleg rekstraráhrif á skólann á viðkomandi svæði. Gott og vel. En eigum við að gera ráð fyrir því í reiknilíkani? Það kann vel að vera. Við skulum taka umræðuna um það vegna þess að hugsunin á bak við það að opna reiknilíkanið er að fókusinn, þegar fjármagn skortir á ákveðnum stöðum vegna breytinga, fari í þann farveg að við séum að endurskoða reiknilíkanið til að geta gripið inn í. (Forseti hringir.) Við erum með fjármagn til að bregðast við á þessu ári. En draumurinn væri auðvitað sá að reiknilíkanið gæti fóðrað þetta sem mest (Forseti hringir.) vegna þess að það er ógerningur með 20–30 skóla að bregðast handvirkt við breytingum hjá hverjum og einum þeirra.