Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[20:35]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Mér fannst hv. þingmaður snúa eilítið út úr orðum mínum vegna þess að sá sem hér stendur sagði aldrei að breskt menntakerfi væri það lélegasta í heimi eða eitthvað slíkt, af því að þingmaðurinn gaf það í skyn. (EÁ: … kennsluaðferðir.)

Virðulegur forseti. Ég sagði einfaldlega að það þyrfti meira til en bara það sem hv. þingmaður var að tala um. Þegar þingmaðurinn talar um að ekki sé í gangi vinna við akkúrat þetta vil ég bara benda þingmanninum á að umrætt verkefni í Vestmannaeyjum er m.a. með stuðningi og er samstarfsverkefni við mennta- og barnamálaráðuneytið, þannig að sú vinna er í samstarfi við íslensk stjórnvöld. Þess vegna fór ég í heimsókn til Vestmannaeyja fyrir þremur vikum til þess einmitt að kynna mér stöðu verkefnisins, hvernig það gengi, og hyggst heimsækja Vestmannaeyjar aftur fyrir árslok, m.a. til að fara yfir þessi mál.

Og það er sannarlega rétt hjá hv. þingmanni að stjórnvöld bera ábyrgð á menntakerfinu. Það sem ég var hins vegar að reyna að benda hv. þingmanni á, og ég held að það sé staðreynd, er að stjórnvöld, og þá tala ég um ríkisstjórn og Alþingi sem stjórnvöld, aðallega ríkisstjórn, hafa í allt of miklum mæli á síðustu 25 árum látið leik- og grunnskólakerfið afskiptalaust vegna þess að sveitarfélögin reka það. Ég held að þetta hafi bara verið stefna sem var tekin þegar grunnskólinn var fluttur yfir til sveitarfélaganna af báðum aðilum, að ríkið ætti ekki mikið að vera að skipta sér af grunnskólakerfinu. Það á við á mjög fjölbreyttum sviðum vegna þess að þegar kemur að annarri stoðþjónustu í skólunum er ríkið ekki mikið að skipta … (EÁ: …námskrána?) — Þá er ríkið ekki mikið að skipta sér af því. Eitt er að breyta námskrá, annað er að fylgja því eftir. Við höfum séð námskrárbreytingar gerðar á undanförnum árum og áratug sem ekki hafa skilað sér því að þjónustan fylgir ekki eða það er engin eftirfylgni. Það er það sem við þurfum að byggja upp; það er eftirfylgni með því og það er það sem við ætlum að gera og ég skora á hv. þingmann að koma með okkur í þann leiðangur.