Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

störf þingsins.

[14:00]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Eftir að ríkislögreglustjóri lýsti yfir hættuástandi á landamærunum vegna mikillar fjölgunar hælisleitenda og úrræðaskorts til að takast á við þá þróun hafa a.m.k. tveir ráðherrar viðurkennt að hér sé um að ræða alvöruvanda sem þurfi að takast á við. Það sem mér þótti enn merkilegra var að þessir tveir hæstv. ráðherrar, dómsmálaráðherra og fjármálaráðherra, viðurkenndu að þetta hefði ekki gerst af sjálfu sér heldur væri það afleiðing þeirrar stefnu sem við höfum rekið hér á Íslandi eða íslensk stjórnvöld hafa rekið og ekki hvað síst og alveg sérstaklega ríkisstjórn. Þetta var nefnilega mikið rætt hér við lok síðasta þings þegar þessi sama ríkisstjórn gerði þriðju tilraunina til að koma í gegn máli sem var til þess fallið að auglýsa Ísland sem áfangastað og auka enn á þann þjónustumun sem er í boði, þann sama mun og þessir hæstv. ráðherrar telja að nú sé að koma okkur í koll. Svoleiðis að það er ekki lengra síðan að ríkisstjórnin var að vinna í þveröfuga átt, var að auglýsa Ísland enn frekar sem áfangastað með þessari löggjöf, sem náðist í gegn, var samþykkt í þessari þriðju tilraun eftir að þingmenn Miðflokksins höfðu í tvígang náð að stöðva hana og staðið fyrir talsverðri umræðu um. En sú umræða kallaði ekki á mikil viðbrögð frá stjórnarflokkunum. Þeir reyndu ekki að koma til þess að verja þessa stefnu eða útskýra hvers vegna hún væri til bóta. Nei, þeir þögðu. Þeir tóku ekki þátt í umræðunni en ýttu málinu í gegn. Afleiðingarnar blasa nú við og hér koma ráðherrar og segja: Þetta er ískyggileg þróun. En þá spyr ég: Hvað ætla þeir að gera í þessu? Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera? Ég held að það komi í hlut þingsins óhjákvæmilega að ræða þessi mál og bregðast við.