Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[16:00]
Horfa

Flm. (Logi Einarsson) (Sf) (andsvar):

Forseti. Mér er ljúft að verða við afsökunarbeiðni hv. þm. Óla Björns Kárasonar og fullvissa hann um að ég var mjög skýr þegar ég talaði um að gæta hagsmuna okkar. Ég biðst jafnframt afsökunar á því sjálfur að hafa hrópað fram í ræðu þingmannsins. (Gripið fram í.) Mér fannst gott í ræðu hv. þingmanns að hann lítur ekki á málið svarthvítt. Hann segir að það séu kostir og gallar og ég held að það sé ágætisnálgun fyrir okkur öll. Hann talar almennt um að við eigum að vera í góðum samskiptum við umheiminn enda hef ég talið okkur vera í stórum dráttum nokkuð samtaka þegar kemur að viðhorfi til fjölþjóðasamstarfs, fríverslunarsamninga og tolla, til skamms tíma.

Hagsmunamat stóru Norðurlandaþjóðanna þriggja hefur breyst. Danir eru þátttakendur í Evrópusambandinu núna og Finnar og Svíar eru að ganga í NATO. Þetta hafa Norðmenn séð og heyrt og nú heyrir maður að þetta sé einhvern veginn að komast á dagskrá aftur, þrátt fyrir að þjóðin hafi tvisvar hafnað inngöngu. Í ljósi þessa langar mig að spyrja hv. þingmann, af því að hann hefur líka talað um EES-samninginn sem okkar allra mikilvægasta samning, hvort hann telji að það kalli á nýtt hagsmunamat af hans hálfu og hans flokks ef Norðmenn myndu hugsa sér til hreyfings og jafnvel sækja um inngöngu í Evrópusambandið?