Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[17:26]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Þau grunngildi sem hv. þingmaður nefndi hér áðan, lýðræði, mannréttindi og frelsi, eru grunngildi sem við Íslendingar höfum sameinast um, Norðurlöndin hafa sameinast um og Norðurlandasamstarfið og Evrópusambandið gerir það líka og Evrópusamvinnan. Ég tek heils hugar undir það, um það greinir okkur hv. þingmann ekki á, við erum algerlega sammála. Þess vegna held ég að það sé ofboðslega mikilvægt á tímum sem þessum að Evrópuþjóðir standi saman gegn ógnarvaldi Pútíns sem er að ráðast inn í annað ríki, er í raun að ráðast á þessi grunngildi sem eru lýðræði, mannréttindi og frelsi. Ég tel aftur á móti að Ísland þurfi ekki að vera innan Evrópusambandsins til að tala hátt og skýrt og taka afstöðu í því og styðja þar af leiðandi Úkraínumenn.

Hv. þingmaður nefndi ýmislegt. Hann nefndi m.a. sveiflur í byggingariðnaðinum sem hann sem arkitekt þekkir vel úr fyrra starfi og ég viðurkenni að ég þekki líka vel, komandi af sveitarstjórnarstiginu og hef fjallað um skipulagsmál í langan tíma. Það er í rauninni alveg sérstakt rannsóknarefni af hverju okkur hefur ekki tekist að ná meira jafnvægi á byggingarmarkaði. (LE: Vextir.) Vextir geta verið hluti af því en það er mikið rannsóknarefni hvernig okkur hefur ekki tekist að teygja út línuna því að það er stöðugt flökt þegar kemur að byggingarmarkaðnum. Ég held reyndar að skýringin sé ekki sú að við gætum losnað við þetta flökt á byggingarmarkaðnum með því að ganga í Evrópusambandið. Ég held ekki. Þarna kemur inn framboðsvandi, skipulagsreglugerðir og þarna kemur líka inn ákveðinn stöðugleiki hjá fyrirtækjum sem starfa á þessum markaði. Hv. þingmaður kallaði hér frammí: Vextir. Og það er alveg rétt, við búum við hærra vaxtastig með íslensku krónunni. Það er staðreynd, það er alveg rétt hjá hv. þingmanni. Þá segja margir að það bitni á almenningi í landinu. Þá segi ég bara: Af hverju eru lífsgæði fólks á Íslandi þau þriðju bestu í heiminum á eftir Sviss og Noregi? Allt lönd sem ekki eru innan Evrópusambandsins.