Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[18:02]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. En skil ég hv. þingmann rétt, að afstaða hans og Pírata sé sú að það ætti að segja já, að þeir myndu tala fyrir því að þjóðin segði já í þessari þjóðaratkvæðagreiðslu svo það væri hægt að klára samninginn og koma svo með hann aftur í þjóðaratkvæðagreiðslu? Það er raunverulega það sem ég er að spyrja um. Hver er afstaða þingmannsins þegar kemur að því hvort við eigum að halda áfram samningaviðræðunum? Það er spurning mín. Ég held að það sé mjög mikilvægt, eins og ég sagði áðan, að stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar taki afstöðu og segi kjósendum sínum hver afstaða þeirra er í ákveðnum málum. Eins og komið hefur verið inn á í umræðunni er mjög stutt síðan við fórum í kosningar. Viðreisn setti í mínum huga Evrópusambandsaðild, eða sérstaklega það að taka upp evruna, kannski ekki endilega Evrópusambandsaðild, hvernig sem það á nú að ganga upp, algerlega á oddinn. Það voru þeirra skilaboð. Samfylkingin gekk ekki jafnlangt í því að tala fyrir því núna. Aðrir flokkar gefa sig út fyrir að vilja ekki taka umræðuna áfram þannig að mér fannst alveg skýrt hvað þjóðin sagði í síðustu kosningum; það var enginn sérstakur áhugi á samtali um Evrópusambandið.