Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[18:11]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir seinna andsvarið. Já, ég held að við getum ekki vitað það fyrr en við látum reyna á það. Við erum ekki að koma að tómum kofanum, það er að sjálfsögðu búið að ræða einhver mál. En það eru líka önnur mál sem ekki hafa verið rædd. Ég bjó og var í námi í Kaupmannahöfn þegar Maastricht-samkomulagið var gert. Þá var enginn séns fyrst að einhver ríki fengju að vera með eitthvað annað en evruna. Það kom ekki til tals. Svo var bara þetta fellt í Danmörku og þá var allt í einu hægt að semja um það. Ég held að samningsstaða okkar núna, miðað við hvernig hún var kannski fyrir tíu árum síðan, sé jafnvel allt önnur. Evrópusambandið er búið að þróast og breytast og heimurinn, umheimurinn allur búinn að breytast. Hvernig vitum við hvaða svör við fáum fyrr en við látum reyna á það?