Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[19:11]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég verð að segja að ég held að sérsveit Sjálfstæðisflokksins sem hefur birst okkur hér í dag í umræðum undir þessu máli hefði ekki getað orðað þetta betur: Þetta er ekki tíminn. Það eru bara mun brýnni mál sem eru í gangi. Úkraína svarar þessu á sinn hátt. Úkraína er í miðju stríði og leggur sem aldrei fyrr áherslu á að verða hluti af Evrópusambandinu. Mér finnst það skýrasta dæmið um það hversu mikilvægt þetta mál er. Það er aldrei tíminn. Það var ekki tími fyrir Vinstri græn fyrir tíu árum að klára aðildarviðræður. Það var ekki tími fyrir Vinstri græn fyrir fimm árum og hvað þá núna. Ég spyr: Hvenær er tíminn? Þetta er eitt mesta hagsmunamál íslenskra heimila, íslenskra fyrirtækja, íslenskra nýsköpunarfyrirtækja, samkeppnismál. Hvar værum við ef við hefðum ekki Evrópusambandið? Alla vega er það þannig að mestu hindranirnar í samkeppnismálum á Íslandi eru þar sem við erum ekki aðilar að EES-samningnum. Við múrum við allt inn þar sem eru heimatilbúnar tillögur. Þar sem við erum neydd á grundvelli EES-samstarfsins til að fara í aukna samkeppni er opið. Þannig að ég segi: Evrópusambandið er (Forseti hringir.) einmitt leiðin til friðar, leiðin til betri lífskjara og þess vegna er brýnt að málið fari til þjóðarinnar.