Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

hækkun skattleysismarka og lágmarksframfærslu lífeyrisþega.

4. mál
[20:04]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Forseti. Mig langaði að þakka hv. þm. Ingu Sæland fyrir góða framsögu á mikilvægu máli sem ég styð hjartanlega. Við þurfum að gera hluti til þess að taka byrðar af þeim sem verst standa og setja byrðarnar á þá sem munar ekki um að borga aðeins meira. Það eina sem mig langar að spyrja hv. þingmann um er að í þessari tillögu til þingsályktunar er ráðherra gefinn möguleiki á að vinna lagafrumvarp fyrir árslok 2023. Er það ekki allt, allt of seint? Þarf þetta ekki að gerast núna? Mig langaði að vita hvort hv. þingmaður hafi spáð í að gera breytingartillögu við fjárlagafrumvarpið og bandorm til þess að fá þetta í framkvæmd núna, sér í lagi vegna þess að ef verðbólgan heldur áfram eins og hún er þá verða þessar upphæðir sem ráðherra þarf að uppfylla fyrir lok 2023 orðnar allt, allt of litlar.