Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

hækkun skattleysismarka og lágmarksframfærslu lífeyrisþega.

4. mál
[20:47]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Jóhanni Páli Jóhannssyni fyrir andsvarið. Ég segi hreint og klárt nei. Það byrjar ekki að hafa áhrif fyrr en það er komið upp undir 700.000 kr., ef ég man rétt, og svo fjarar persónuafslátturinn út við milljón. Við erum að tala um fólk, t.d. þá lægstu í ellilífeyriskerfinu sem fá lægstan lífeyrinn og við höfum meira að segja hóp sem fær 10% lægra en lægsta lífeyri, sem er útborgað 225.000 kr. Spáið í það að vera í þjóðfélaginu á Íslandi og fá 225.000 kr. Hver haldið þið að breytingin yrði fyrir þennan hóp að fá 400.000? Þetta er nærri tvöföldun og samt er þetta fólk ekkert að fá eitthvað svaka mikið eða of mikið. Ef við horfum á persónuafsláttinn þá skil ég hann ekki. Maður með kannski með 2–3 milljónir í mánaðarlaun hefur ekkert að gera við persónuafslátt. Þetta eru 2–3% af laununum hans og hann verður ekki einu sinni var við þetta. Fyrir utan það að við erum líka með tillögu t.d. um að skattleggja inngreiðslur í lífeyrissjóð sem myndi skila ekki undir 70 milljörðum. Við erum að tala um 32 milljarða kostnað við þetta. Við gætum borgað þann kostnað upp og við ættum annað eins eða meira eftir til að taka á heilbrigðiskerfinu. En við erum samt ákveðin í því að leyfa lífeyrissjóðunum frekar að „gambla“ með þessar skatttekjur á markaði , (Forseti hringir.) liggur við spila með þær, frekar en að nýta þær því fólki til góða sem á þessa peninga.