Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

hækkun skattleysismarka og lágmarksframfærslu lífeyrisþega.

4. mál
[20:52]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég skal alveg viðurkenna að þetta er vandmeðfarið mál en þetta er lífsnauðsynlegt mál fyrir það fólk sem við höldum í dag í fátækt og jafnvel sárafátækt, fólk með börn og fjölskyldur. Við erum að taka á persónuafslættinum og persónuafslátturinn hefur ekki fylgt launaþróun. Ríkisstjórn eftir ríkisstjórn hefur stundum látið hann hækka og þess á milli ekkert en passað sig á því að láta hann aldrei fylgja launaþróuninni. Það er eitthvað skrýtið við þessa hagstjórn, að það skuli vera hægt að taka fólk úr því að vera ekki með neina skattbyrði og jafnvel eiga afgang af persónuafslættinum yfir í að vera að borga 40.000–50.000 kr. á mánuði í skatt og þá erum við að tala um að fá útborgaðan einhvern 250.000 kall. Ef við tækjum bara þennan 50.000 kr. skatt af þessu fólki væri upphæðin strax komin í 300.000, bara við það. Síðasta vetur hækkuðum við öryrkja um einhverjar 25.000 kr. og þá voru allir sammála um að eina leiðin til að það skilaði sér í vasann væri að það yrði skatta- og skerðingarlaust. Núna kemur ríkisstjórnin og segir: Heyrðu, við erum búin að setja 3% og við ætlum að setja 6% í viðbót en við ætlum að setja það beint í hítina. Út af hverju? Af því að þeir vita að þá skilar það sér ekki í vasa þeirra sem mest þurfa á því að halda heldur rennur það bara gegnum almannatryggingar og beint í ríkissjóð aftur. Þess vegna verðum við að breyta þessu kerfi.