Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 7. fundur,  21. sept. 2022.

skipulagslög.

144. mál
[16:00]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Það er ekki ofmælt, eins og kom fram í fyrri andsvörum, að þetta er umdeilt mál enda er hægt að kalla það nýja nálgun á samskipti sveitarfélaga þegar kemur að skipulagsmálum. Manni finnst stundum eins og stjórnvöldum finnist auðvelt að afskrifa athugasemdir frá umhverfisverndarsamtökum t.d. þegar kemur að málum sem snerta umhverfið, þar sé auðveldara að taka mark á þeim sem eru einhvern veginn í köldu hagsmununum, nota rökhugsunina betur. Þess vegna er svo áhugavert að skoða umsögn sem kom frá Rarik á 152. þingi, þar sem Rarik tekur undir efasemdir þess efnis að frumvarpsdrögin nái þeim markmiðum að auka skilvirkni stjórnsýsluferla. Aðili sem hefur það fremsta hlutverk að leggja raflínur þvert á mörk sveitarfélaga, segir: Þetta er sennilega ekkert endilega málið, og tekur þar með undir umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur sem sagði að þetta væri ekki æskileg leið til að stytta stjórnsýsluferla, og vísaði þar til reynslu sinnar af samráði í sambærilegum verkefnum þar sem Heilbrigðiseftirlitið sagði að vel hefði gengið með það samráð sem það hefði komið að, án þess að lögþvinga það einhvern veginn fram í sérstakri stjórnsýslunefnd. En mig langar að spyrja ráðherrann: Hvernig stendur á því að málið kemur núna efnislega óbreytt í þriðja sinn þegar aðilar sem hafa reynslu af þessum málum og deila sýn ráðherrans á að þau þurfi að vera í góðu horfi, segja að þetta sé ekkert endilega málið?