Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 7. fundur,  21. sept. 2022.

skipulagslög.

144. mál
[16:18]
Horfa

Ingibjörg Isaksen (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir yfirferð sína og að mörgu leyti er ég sammála henni. Þar sem við sitjum saman í umhverfis- og samgöngunefnd eigum við eflaust eftir að taka þetta mál til umræðu þar og ræða það í kjölinn. Mig langar aðeins til að bregðast við orðum hv. þingmanns varðandi skipulagsrétt sveitarfélaga. Hún kom vel inn á að það eru ekki allir sammála um hvernig beri að nálgast þetta og þetta frumvarp sem hér er lagt fram er m.a. til að mæta þeirri stöðu sem við stöndum frammi fyrir í dag, til að við náum framgangi í því að byggja upp byggðalínuna okkar og dreifa rafmagni um landið allt. Í frumvarpinu kemur fram tillaga um stjórnsýslunefnd með aðkomu fulltrúa frá öllum sveitarfélögum. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún telji ekki mikilvægt að sveitarstjórnarfulltrúar hafi aðgang að þessu máli og fái að segja sína sögu og hvort það sé ekki mikilvægt að hafa það inni.