Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 7. fundur,  21. sept. 2022.

skipulagslög.

144. mál
[16:47]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst stundum eins og ég skilji hugtakið fordæmisgefandi öðruvísi en stjórnarliðar þegar við ræðum þessi mál. Þetta kom t.d. fram í áliti meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar á 151. þingi, en þar sagði: „Ákvæðin ná ekki til annarra innviða eins og samgönguframkvæmda og er það mat meiri hlutans að þær skapi ekki fordæmi varðandi frekari takmörkun á skipulagsvaldi sveitarfélaga.“ Ég heyri sama tón frá hv. þingmanni. En þó að það sé ekki talað um samgönguframkvæmdir í þessu frumvarpi, þótt það sé ekki beinlínis verið að snerta á þannig lagagreinum í þessum texta þá er það ekki þannig sem fordæmi virkar. Það þarf ekki að segja „hafnarframkvæmd“ í frumvarpinu til að einhvern tímann eftir fimm ár detti einhverjum í hug að hafnarframkvæmdir eigi heima þarna undir. Það þarf ekki að standa neitt um Reykjavíkurflugvöll þó að einhverjum þingmönnum detti í hug að þetta væri sniðugt módel til að beisla hugmyndir fólks um að byggja upp mannvænt samfélag í kringum Vatnsmýrina. Fordæmið sem er gefið er þetta módel. Það er verið að prufukeyra módel á flutningskerfi raforku vegna þess, eins og kemur fram hjá hv. þingmanni, að marga landshluta þyrstir réttilega í almennilegt afhendingaröryggi. Staðan á Vestfjörðum er ekki góð, ekki frekar en það er góð staða að stór hluti af Norðurlandi geti slegið út og verið úti dögum saman um miðjan vetur. Þetta á ekki að vera ásættanlegt. Að sama skapi má ekki nota það sem einhverja tylliástæðu til að byrja að éta einhvern fíl, eins og sagt var hér í ræðu fyrr í dag, án þess að nokkrum sé sagt nákvæmlega hvað sé endamarkmiðið. Ef einhverjum dettur í hug að nota þetta sem fordæmi og þær hugmyndir eru greinilega komnar inn í stjórnarliðið, þá þurfum við að ræða það frekar en að segja að við séum hér að ræða raflínur og ekki neitt annað (Forseti hringir.) því að við erum ekki bara að ræða raflínur og ekkert annað.