Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 8. fundur,  22. sept. 2022.

sala á upprunavottorðum.

[10:51]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég biðst velvirðingar, mér varð á í messunni og nýtti einmitt 2. persónu. Ég biðst afsökunar á því.

Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Ég hef ekki lesið greinina sem hann vitnaði til í Bændablaðinu en mun gera það að þessum fyrirspurnatíma loknum. Hv. þingmaður hefur rætt aflátsbréfin og er þá ekki að vísa í viðskiptakerfi með losunarheimildir heldur þessi sérstöku bréf sem hafa oft verið til umræðu í þessum þingsal. Hann spyr mig sérstaklega um mitt viðhorf í því. Ég vil bara einfaldlega segja að auðvitað er æskilegast að þessi mál séu með eins gagnsæjum hætti og mögulegt er. Þegar um er að ræða kaup á slíkum aflátsbréfum sem í raun og veru birta ekki réttar upplýsingar um uppruna orkunnar þá dregur það auðvitað úr gagnsæi sem ætti náttúrlega að vera ákveðið forgangsatriði þegar við erum að tryggja að almenningur sé vel upplýstur um það t.d. hvaðan orkan kemur sem við nýtum hér. Ég get tekið undir með hv. þingmanni þegar kemur að sjónarmiðum um gagnsæi í þessum efnum.

Kannski var það vegna málfarsathugasemda forseta að ég náði ekki alveg endanlegri fyrirspurn hv. þingmanns en ég vísa til þessara almennu sjónarmiða hér í mínu fyrra svari. Hv. þingmaður getur þá brýnt mig aðeins í síðari fyrirspurn sinni.