Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 8. fundur,  22. sept. 2022.

orð ráðherra um yfirheyrslur á blaðamönnum.

[11:06]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svarið. Það er kannski með hæstv. forsætisráðherra eins og manni hefur þótt með marga ráðherra þessarar ríkisstjórnar í svörum hér við þessari fyrirspurn og annarri að það er eins og þeir sitji ekki í ríkisstjórn. Orðin sem ég vísaði til hérna áðan, viðhorfið sem ég vísaði til hér áðan, voru viðhöfð af hálfu hæstv. ráðherra í ríkisstjórn hæstv. forsætisráðherra. Ég velti fyrir mér hvort það sé ekki eitthvað sem rétt væri að forsætisráðherra hefði skoðun á eða gæti tekið afstöðu til óháð því hvaða mál eru til rannsóknar hjá lögreglu.

Ég ætla að nota tækifærið og lesa hér upp að lokum lokaorð formanns Blaðamannafélags Íslands, sem rituð voru í tilefni af orðum hæstv. fjármálaráðherra, en hún sagði, með leyfi forseta:

„[S]tjórnmálaleiðtogar í lýðræðisríkjum hafa á undanförnum mánuðum verið óþyrmilega minntir á nauðsyn frjálsrar, faglegrar blaðamennsku, á meðan valdamenn í þeim ríkjum sem hneigjast til ólýðræðislegra stjórnarhátta, leggja stein í götu frjálsra fjölmiðla, takmarka athafnafrelsi þeirra og ofsækja blaðamenn, meðal annars með hjálp lögreglu. Íslenskir stjórnmálamenn standa ekki fyrir utan þessi átök. Ég vona að þeir beri gæfu til að standa með blaðamönnum þjóðarinnar í baráttunni fyrir fjölmiðlafrelsi, tjáningarfrelsi og lýðræði.“ (Forseti hringir.)

(Forseti (StB): Forseti minnir á að í síðari fyrirspurn og andsvari hv. þingmanna í óundirbúnum fyrirspurnum er aðeins 1 mínúta til ráðstöfunar.)