Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 8. fundur,  22. sept. 2022.

Virðismat kvennastarfa.

[11:15]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur fyrir að taka þetta mikilvæga mál upp. — Og enn eru tveir karlar í þingsal. Hv. þingmaður vitnaði hér í aðgerðir í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar til þess að draga úr kynbundnum launamun hjá hinu opinbera. Ég skipaði aðgerðahóp til skýringar á þessu ferli öllu til að vinna að aðgerðum til að útrýma launamun kynjanna sem skýrist af kynskiptum vinnumarkaði og kerfisbundnu vanmati á hefðbundnum kvennastörfum. Í raun og veru er þetta önnur aðferðafræðin sem við höfum fylgt hingað til þar sem við höfum verið að vinna með jafnlaunavottun og önnur mjög mikilvæg tæki til að draga úr launamun kynjanna, þ.e. einbeita okkur að hinum kynskipta vinnumarkaði og hvernig við getum dregið úr launamun með því að taka í raun á þeim launamun sem til staðar er vegna kynskipts vinnumarkaðar.

Aðgerðahópur stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins er skipaður fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga, fjármála- og efnahagsráðuneytis, SA, BSRB, ASÍ og Kennarasambands Íslands og formaður hópsins er skrifstofustjóri jafnréttis- og mannréttindamála í forsætisráðuneytinu. Hann vinnur að þróunarverkefni með fjórum stofnunum ríkisins. Markmið þess verkefnis er að þróa verkfæri til að leggja mat á virði starfa með áherslu á launajafnrétti þvert á vinnustaði og stofnanir. Frá sjónarhóli ríkisins sem atvinnurekanda er þetta nokkuð ný nálgun varðandi mat og virði starfa. Sú virðismatsnálgun byggir á því sem hv. þingmaður fór hér yfir, að kynbundinn launamunur sé félagslegt fyrirbæri með sögulegar og menningarlegar rætur þar sem kvennastörf eru lægra metin að jafnaði vegna vanmats á þáttum í þessum störfum sem að jafnaði eru taldir kvenlægir. Hv. þingmaður taldi upp nokkra slíka þætti hér og við getum talað um það sem oft er kallað umhyggjuhagkerfið, til að mynda, í þeim efnum. Þetta vanmat byggir ekki endilega á illum ásetningi eða meðvitaðri hlutdrægni en virðismatsnálgunin er ein aðferð eða leið til að draga fram ómeðvitaða hlutdrægni. Afleiðingarnar af þessu vanmati eru viðvarandi launamunur kynjanna að stærstum hluta þó að 70 ár — 70 ár — séu liðin frá samþykkt jafnlaunasamþykktar ILO og 60 ár frá því að jöfn laun karla og kvenna voru færð í lög hér á Íslandi. Það eru 60 ár. Mér finnst það alveg ótrúlega langur tími sem þetta hefur tekið, herra forseti.

Þróunarverkefni aðgerðahópsins með þessum fjórum stofnunum fjallar um leið til að fara ofan í kjölinn á þessu vanmati, endurskoða þá þætti sem lagðir eru til grundvallar við mat á störfum þvert á stofnanir. Þá er byggt á þekkingu á stöðu kvenna á vinnumarkaði, áhrifum kynjakerfisins á verðmætamat starfa og vinnu, reynslu annarra þjóða og stuðst við leiðbeiningar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um framkvæmd jafnlaunasamþykktarinnar um jöfn laun fyrir jafn verðmæt störf. En þar er áhersla á mat og virði starfa og þróun matskerfa sem eru eins laus við kynjaskekkju og mögulegt er. Stofnanirnar sem hafa verið valdar til samstarfs eru Ríkislögreglustjóri, Tryggingastofnun, Heilbrigðisstofnun Vestfjarða og Hafrannsóknastofnun. Þær eru valdar til þess að endurspegla fjölbreytileika ríkisstofnana með tilliti til kynjahlutfalls, fjölbreytni starfa og fleiri þátta.

Þetta verkefni hófst í júní sl. og unnin hefur verið undirbúnings- og kynningarvinna í samstarfi aðgerðahópsins og kjara- og mannauðssýslu ríkisins, Jafnlaunastofu sveitarfélaga og þessara stofnana. Greiningarvinnu mun ljúka á næstu vikum og því næst verður unnið að þróun á virðismatskerfi sem nýst geti í víðara samhengi. Síðan er gert ráð fyrir því, þegar þessu tilraunaverkefni er lokið, að við ættum að sjá hér eftir u.þ.b. ár tillögur sem byggja á þessu tilraunaverkefni.

Hvað líður framgangi annarra tillagna? Ja, þetta er talið mikilvægasta verkefnið af hálfu aðgerðahópsins og mest áhersla lögð á það, en einnig er verið að vinna að fræðsluráðgjöf og auknu samtali til að auka vitund um jafnvirðisnálgun jafnréttislaga, sem var ein af tillögum fyrri starfshópsins. Þessar tvær tillögur eru þær veigamestu sem unnið er að.

Ég vil svo nefna, af því að hv. þingmaður spyr hér um aðrar leiðir, að vissulega hefur dregið úr launamun kynjanna, svo við séum aðeins jákvæð líka, m.a. vegna aðgerða stjórnvalda, eins og jafnlaunavottunar. En það dugir ekki til, eins og ég nefndi. En það kemur hins vegar fram að launamunur karla og kvenna hefur dregist saman síðustu ár og það á jafnt við um atvinnutekjur, óleiðréttan launamun og leiðréttan launamun. Ég ætla ekki að lesa hér upp tölurnar, ég get kannski gert það á eftir ef ég hef tíma, en eins og hv. þingmaður bendir réttilega á er 14% óleiðréttur launamunur. Það getur þýtt lægri greiðslur í lífeyrissjóði, þar með talið viðbótarlífeyrissparnaður og áhrif á afkomu kvenna út ævina. Það er auðvitað algjörlega galið, herra forseti, að 60 árum eftir að við færðum þetta í lög á Íslandi séum við enn með þennan launamun (Forseti hringir.) og enn að fást við það að við sem sitjum nú á þingi getum átt von á því að okkar kynslóðir (Forseti hringir.) verði að eiga við þetta ranglæti í samfélaginu þrátt fyrir að (Forseti hringir.) þetta hafi verið í lögum svo lengi. — Afsakið, herra forseti. Mér varð skyndilega heitt í hamsi. Fyrirgefið.