Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 8. fundur,  22. sept. 2022.

Virðismat kvennastarfa.

[11:20]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):

Virðulegur forseti. Til að styrkja stöðu kvennastétta á vinnumarkaði þarf fyrst og fremst að hækka laun þeirra. Hér á landi er ein stór kvennastétt hreinlega í útrýmingarhættu þótt afleiðingarnar eigi enn eftir að koma fram af fullum þunga þegar stéttin eldist úr starfi. Þarna er ég að tala um grunnskólakennara. Meðalaldur grunnskólakennara er um 55 ár en endurnýjun stéttarinnar er því miður allt of hæg og þar spila laun og starfsaðstæður stærstu rulluna. Samkvæmt tillögum vinnuhóps forsætisráðherra um endurmat á virði kvennastarfa er lagt til að kvennastéttir nýti svokallað starfsmat til að, eins og nafnið ber með sér, láta endurmeta kvennastörf sín til hærri launa. Nú ber svo við að í kjarasamningi grunnskólakennara árið 2019 var samið um að grunnskólakennarar færu í gegnum þetta starfsmat, en þá kom einfaldlega í ljós að þeir passa ekki inn í það. Starf grunnskólakennara er gríðarlega umfangsmikið og oft flókið. Þeir þurfa á hverjum degi að sinna ólíkum hlutverkum, eins og t.d. sköpun og námsefnisgerð, undirbúa margar kennslustundir á hverjum degi með tilliti til mjög ólíkra þarfa, kannski 25 barna þar sem einn þriðji til helmingur þeirra er með mismunandi greiningar, og miðla til þessa sundurleita hóps auk þess að verkstýra honum í vinnu. Þetta er fyrir utan margs konar samskipti við börn, foreldra og samkennara auk funda t.d. með sálfræðingum vegna mismunandi þarfa nemenda í þeirra umsjá.

Þó að þessi listi sé langur er samt ekki allt upp talið því að hver einasti dagur er í raun opin bók sem enginn veit hvernig endar. En hvernig passar þetta inn í starfsmat? Þetta passar bara alls ekki inn í starfsmatið eða þá myndu grunnskólakennarar skora svo hátt í svo mörgum þáttum að ef þeir væru rétt metnir yrðu þeir of vel launaðir, kannski á pari við þingmenn. Í starfsmatinu sem grunnskólakennarar fóru í gegnum átti sem dæmi ekki að veita þeim nein stig fyrir verkstjórn. Þeir voru lægra metnir en hópstjórar í unglingavinnunni sem fengu samkvæmt starfsmatinu nær fullt hús stiga fyrir sína verkstjórn. Af hverju skyldu kennarar ekki fá stjórnunarlaun fyrir verkstjórn yfir 20–40 einstaklingum? Er það kannski lítils metið af því að þeir verkstýra börnum og af því að börn eru lítil? Eða er það af því að þetta eru konur?