Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 8. fundur,  22. sept. 2022.

Virðismat kvennastarfa.

[11:31]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur fyrir að hefja þessa umræðu hér. Af því að það hefur verið gert nokkrum sinnum síðan umræðan hófst að telja fjölda karlmanna í salnum þá vil ég halda því til haga að hér í salnum eru tveir þingmenn stjórnarandstöðu af frjálsum vilja en hæstv. forseti getur ekki annað, þannig að það vantar fulltrúa stjórnarflokkanna hér í salinn og hvet ég þá til að mæta. En þessi umræða er auðvitað að mörgu leyti snúin hvað það varðar að ná utan um þetta, en það er eitt atriði sem mig langar að koma inn á í fyrri ræðu minni og það snýr að því hversu alltumlykjandi ríkið og hið opinbera er sem launagreiðandi og vinnuveitandi í þessum stóru stéttum sem helst tilheyra þessum lægra launuðu hópum samfélagsins. Ég velti fyrir mér hvort hluti lausnarinnar geti verið sá að fækka hlutfallslega opinberum starfsmönnum og fjölga starfsmönnum á almennum markaði með því að auka frelsi þeirra stofnana. Við þekkjum öll umræðuna um það hversu snúið hefur verið fyrir heilbrigðisfyrirtæki á einkamarkaði að skipuleggja sinn rekstur undanfarin kjörtímabil og það sem af er þessu. Það snýr að hjúkrunarfræðingum og öllum þeim stéttum sem koma að heilbrigðisgeiranum, að grunnskólakennurum og leikskólakennurum. Ég hef trú á því að ef hærra hlutfall starfsfólks í þessum stéttum ætti möguleika á því — velkominn, Ási — að sækja starf í einkageirann þá yrði samkeppnin með þeim hætti að það væri líklegt að launakjör þessara hópa þrýstust upp á við.