Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 8. fundur,  22. sept. 2022.

Virðismat kvennastarfa.

[11:36]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Þessi umræða sem við eigum hér núna er eitt af allra stærstu málunum sem við getum rætt því að hún snýst um réttlæti í samfélaginu og að kynin séu metin að verðleikum þegar kemur að launum. Það er ljóst, eins og í raun hefur verið farið hér yfir bæði af hv. málshefjanda og eins hæstv. forsætisráðherra í þessari umræðu, að það gerist ekkert í þessum málum af sjálfu sér. Það er ekki nægjanlegt að setja lög sem segja að tryggja eigi jafna stöðu karla og kvenna, það þarf fleira að koma til. Þetta snýst heldur ekki um það að konur eigi að gera betur á einhvern hátt: Að mennta sig, hefur verið nefnt, jafnvel sækja í önnur störf. Þetta snýst ekki um það. Konur geta ekki með breyttri hegðun sinni breytt gangi heils samfélags. Það skiptir þess vegna máli að stjórnvöld grípi til aðgerða hjá sér líkt og verið er að gera. Þar þarf að halda áfram. Það er gríðarlega mikilvægt að stéttarfélögin stigi hér inn eins og þau hafa verið að gera og haldi þeirri vinnu áfram. En svo er þetta líka verkefni samfélagsins alls vegna þess að það þarf viðhorfsbreytingu, það þarf menningarbreytingu til þess að viðurkenna það að karlar og konur og kynin öll eigi að vera jafn sett og þannig samfélag ættum við að hafa.