Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 8. fundur,  22. sept. 2022.

Virðismat kvennastarfa.

[11:41]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér virðismat kvennastarfa. Það er auðvitað nátengt jafnréttisbaráttunni og þar getum við Íslendingar með sanni sagt að við séum best í heimi, alltaf í fyrsta sæti. Frábær árangur hjá okkur. Við erum með lagaumhverfi sem virðir fullkomið jafnrétti. Við höfum séð það að konur hafa flykkst í nám, útskrifast úr háskólum og meira að segja er svo komið að það liggur við að maður hafi áhyggjur af drengjunum okkar, strákunum okkar, en samt sitjum við uppi með það að launamunur er enn til staðar. Þá má velta fyrir sér hverju það sæti. Þegar horft er til þeirra stóru kvennastétta sem nefndar hafa verið hér, m.a. grunnskólakennarar og hjúkrunarfræðingar, þá er það náttúrlega alveg ljóst að þeir sem mennta sig til þessara starfa og vilja starfa við það sem þeir menntuðu sig til hafa fyrst og fremst möguleika á að vinna hjá hinu opinbera. Lögfræðingar starfa margir hverjir hjá hinu opinbera en þeir geta líka starfað á einkamarkaði. Læknar starfa flestir hjá hinu opinbera en geta líka starfað á einkamarkaði hjá sjálfum sér. Verkfræðingar starfa mest á einkamarkaði en líka hjá hinu opinbera. Það hlýtur að vera eitthvert samhengi þarna á milli. Það hlýtur að vera einhver ástæða fyrir því að hjúkrunarfræðingar og grunnskólakennarar hafa flykkst í að starfa sem flugþjónar, að starfa á einkamarkaði, starf sem þær menntuðu sig ekki til, mikilvægt starf, og einhverra hluta vegna ákveður einkafyrirtækið Icelandair eða einkafyrirtækið Play að það sé meira virði að starfa sem flugþjónn en sem grunnskólakennari eða hjúkrunarfræðingur.

Virðulegur forseti. Ég held að við verðum að taka þetta inn í myndina þegar við horfum á verðmætamatið og velta fyrir okkur hvort markaðurinn sé einfaldlega betur til þess fallinn að leggja mat á virði starfa en opinberar aðgerðir.