Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 8. fundur,  22. sept. 2022.

Virðismat kvennastarfa.

[11:48]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Mig langar til að nefna hérna, af því að við erum svo mikið að ræða vandann, að við ræðum líka lausnirnar. Eitt af þeim verkfærum sem við eigum í þessari baráttu er þingsályktunartillaga sem samþykkt var 2018, sem þingflokkur Viðreisnar lagði fram, sem heitir Þjóðarsátt um bætt kjör kvennastétta. Hún varðar það að jú, vissulega þarf að afla gagna en við þekkjum í raun og sann hver staðan er. Hún fjallar um að ráðherra myndi efna til viðræðna við aðila vinnumarkaðarins og fulltrúa sveitarfélaga með það markmið að ná þjóðarsátt um bætt kjör kvennastétta. Við eigum annað verkfæri sem er jafnlaunavottun, líka mál frá Viðreisn á sínum tíma sem forsætisráðherra hefur beitt sér mikið fyrir og ég er henni þakklát fyrir það. En það er vinna sem lýtur að því að greiða sambærileg laun fyrir sambærileg störf.

Hérna erum við að tala um það hvert virði kvennastéttanna er, eins og þessi umræða gengur út á. Það skiptir máli að fara í aktíft og markvisst samtal og viðræður við aðila vinnumarkaðarins um þetta til að komast í þá stöðu að við séum að ræða lausnir en ekki bara vandamál. Við þekkjum það að launamunurinn veldur því ekki bara að konur hafa að meðaltali minna milli handanna, við þekkjum það að heimilin tapa á þessu líka. Við þekkjum það hver staðan er í lok starfsævinnar vegna þessa en við þurfum að ræða það hverjar afleiðingarnar eru fyrir samfélagið allt. Það eru að koma kjarasamningar. Staðan í heilbrigðiskerfinu, staðan í leikskólanum, staðan í velferðarþjónustunni er auðvitað spegill á það hvernig við verðleggjum störf kvenna. Það er ekki mikið flóknara en svo. Og þá er aðgerðaleysi líka pólitík. Það er pólitík að gera ekki neitt. Það er pólitík (Forseti hringir.) að bregðast ekki við.

En ég þakka fyrir þessa umræðu og ég hvet forsætisráðherrann okkar og stjórnvöld áfram til dáða um að fara í aðgerðir.