Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 8. fundur,  22. sept. 2022.

kirkjugarðar, greftrun og líkbrennsla.

153. mál
[13:04]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég er hingað komin kannski fyrst og fremst til að vekja athygli á athugasemdum sem hafa borist í tengslum við þetta frumvarp sem ég geri reyndar ráð fyrir að hæstv. dómsmálaráðherra sé fullkunnugt um, sem lúta m.a. að því að nú hefur verið lögð inn umsögn um endurskráningu og endurlífgun Bálfarafélags Íslands og því skýtur svolítið skökku við að það sé verið að gera lagabreytingar sem lúta að því að taka hlutverk félagsins alveg úr lögum þegar það er augljóslega ákveðinn vilji kominn upp til að halda félaginu lifandi. Ég vil bara leggja áherslu á að þessar athugasemdir verði teknar til greina. Það er ekki að heyra á máli hæstv. ráðherra að það hafi verið gert áður en frumvarpið kom hingað inn á þing. Þá langar mig bara til að benda hæstv. ráðherra og þingheimi öllum á umsögn Siðmenntar um þetta frumvarp þegar það kom fram síðast. Hún er ítarleg og kannski aðeins lengri en svo að ég gæti þulið hana upp hér í andsvari við hæstv. ráðherra. Þar er m.a. lagður til fjárhagslegur og stjórnunarlegur aðskilnaður kirkjugarða og bálstofu. Nú er búið að koma á fót félagi sem hefur sýnt áhuga á því að setja á fót trúhlutlausa bálstofu. Það er þörf á nýrri bálstofu á Íslandi og ákveðnar breytingar í frumvarpinu gætu verið liður í því að tryggja að ný bálstofa sem yrði byggð á Íslandi myndi hafa að leiðarljósi sjónarmið um trúhlutlausa möguleika á útför og bálför, vegna samkeppnissjónarmiða á þessu sviði.