Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 8. fundur,  22. sept. 2022.

tæknifrjóvgun o.fl.

8. mál
[13:46]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Mig langar bara að byrja á því að óska hv. þm. Hildi Sverrisdóttur innilega til hamingju með að hafa mælt fyrir þessu mikilvæga frumvarpi hér í dag og að þetta mál komist svona snemma á dagskrá og hafi svona lágt málsnúmer. Þrátt fyrir það sem hv. þingmaður sagði hér á undan mér þá er það nú stundum svoleiðis að það getur skipt máli í framgangi málanna. Ég segi: Til hamingju með að vera komin fram með þetta mál sem ég tek undir að er mikilvægt og ég held að sé kannski bara svona eðlileg lagfæring á lagatexta. Eins og hv. þingmaður kom inn á var samfélagið bara öðru vísi þegar þessi lög voru gerð. Það á auðvitað ekki að vera þannig að hið opinbera sé með eitthvert stýrivald og sé að skipta sér af athöfnum fólks í daglegu lífi. Þær tillögur sem hér eru lagðar fram eru kannski ekki stórtækar, eins og hv. þingmaður kom inn á, en skipta fólk mjög miklu máli, fólk sem er í þeirri stöðu.

Hv. þingmaður kom inn á frjósemisvanda og við horfum fram á að hann hefur aukist mjög mikið á síðustu árum. Ég veit að hv. þingmaður hefur verið opinskár í umræðunni um það sem er mjög mikilvægt því að það eru svo margir þarna úti sem eru að glíma við það. Ef við getum með einhverjum hætti liðkað fyrir og auðveldað það erfiða ferli sem í því felst að fara í tæknifrjóvgun eigum við að sjálfsögðu að gera það. Ég vildi líka koma upp og segja að ég styð málið heils hugar.

En vegna þess að mér hættir stundum til að verða smá excel-kona og hugsa um peninga og stóru myndina þá flutti ég ræðu í þinginu í gær eða fyrradag þar sem ég fór yfir að það væri mat okkar að það skorti 15.000 vinnandi hendur á næstu fjórum árum. Og nú hugsar fólk: Hvað er hún að tala um hérna, litlu börnin og vinnandi hendur? En við þurfum líka að vera raunsæ hvað það varðar að barneignum fækkar, þ.e. konur fæða færri börn í dag en þær gerðu fyrir töluverðu síðan. Á sama tíma erum við að upplifa þá miklu gleði að þjóðin eldist út frá þeirri forsendu að við lifum lengur, vonandi líka betur. Það þýðir að einhver þarf að vera þarna úti að vinna, það er bara nauðsynlegt. Ég held reyndar að við þurfum, út frá þessum excel-útreikningum mínum sem ég er hér að fara mjög lauslega í, að horfa enn frekar á það hvernig við getum komið til móts við það fólk sem vill eignast börn en á í erfiðleikum með það. Það er nefnilega þjóðhagslega mjög hagkvæmt, svo að ég noti þjóðhagfræðilegar útskýringar á þessu öllu saman. Þess vegna held ég að það sem hv. þingmaður kom inn á varðandi kostnaðarþátttöku fólks í þessu og annað — það er líka mál sem við þurfum að skoða og við þurfum að skoða það vel. Sjálf hef ég líka talað fyrir því að við þurfum að skoða lögin og opna fyrir staðgöngumæðrun. Ég veit að allar þessar umræður geta flækt mjög málið þannig að ég ætla ekki að gera það. Ég ætla frekar að segja: Hér erum við með einfalt og skýrt og mjög gott mál og ég legg til að það fái afgreiðslu fyrir jólahlé, ég held að það sé mjög mikilvægt. Að því sögðu, þegar það er komið í höfn, held ég að við þurfum að halda umræðunni áfram og fara jafnvel enn lengra í því að velta fyrir okkur hvernig við getum aðstoðað þá sem vilja eignast börn við að fæða börn inn í þennan heim. Við þurfum jú á börnum að halda.