Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 8. fundur,  22. sept. 2022.

skattalegir hvatar vegna launa keppnis- og afreksíþróttafólks.

133. mál
[14:01]
Horfa

Flm. (Ágúst Bjarni Garðarsson) (F):

Forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um skattalega hvata vegna launa keppnis- og afreksíþróttafólks.

Virðulegur forseti. Af því að ég mæli fyrir þessu máli í fyrsta sinn ætla ég að byrja á því að fara yfir tillögugreinina en hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela mennta- og barnamálaráðherra í samvinnu við fjármála- og efnahagsráðherra að skipa starfshóp sem fái það verkefni að útfæra skattalega hvata til launagreiðenda hvort sem er á opinberum eða almennum markaði vegna launa keppnis- og afreksíþróttafólks. Markmiðið er að keppnis- og afreksíþróttafólk fái greidd laun að hluta eða að fullu frá launagreiðanda þegar það þarf að mæta á æfingar eða íþróttamót og launagreiðandi fái skattaívilnun á móti greiddum launum.“

Í greinargerð með málinu er nánar vikið að hugmyndafræði tillögunnar. Keppnis- og afreksíþróttafólk á oft á tíðum erfitt með að fá vinnu við hæfi samhliða íþróttaiðkun vegna þess að fyrirtæki veigra sér við því að ráða starfsmenn sem þurfa að vera frá vinnu vegna tíðra æfinga eða keppnisferða. Afleiðingarnar eru að keppnisíþróttafólk stendur frammi fyrir því erfiða vali hvort það vilji halda áfram að æfa og keppa í sinni íþrótt, með tilheyrandi óvissu um framfærslu, eða ekki. Með takmörkuðum tekjum nær íþróttafólk ekki að ávinna sér full lífeyrisréttindi, atvinnuleysisbætur eða rétt til fæðingarorlofs. Það að bæta fjárhagsáhyggjum ofan á að byggja upp feril í íþróttum er ekki hvetjandi og síst til þess fallið að fjölga efnilegu íþróttafólki hérlendis. Á þetta bæði við um einstaklinga sem eru í innlendum keppnisíþróttum, upprennandi afreksíþróttafólk sem og núverandi afreksíþróttafólk. Sá sem hér stendur, ásamt öðrum flutningsmönnum tillögunnar, telur mikilvægt að skapaður verði sérstakur hvati með skattkerfinu fyrir fyrirtæki til að ráða til starfa hjá sér keppnis- og afreksíþróttafólk. Með því hafa fyrirtæki bæði aukinn sveigjanleika til að koma til móts við mismunandi þarfir og aðstæður íþróttamanna sem og aukinn hvata til þess. Við þetta má auðvitað bæta að sá sem hér stendur telur það einnig heilbrigt og mikilvægt fyrir atvinnulífið í heild að hafa öflugt íþróttafólk innan sinna raða sem smitar svo út frá sér með margvíslegum hætti inn á vinnustaði fólks.

Á 151. þingi voru samþykkt lög um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld (skattalegir hvatar fyrir lögaðila sem starfa til almannaheilla), þskj. 1263, 151. löggjafarþing, 342. mál. Með þeim voru útvíkkaðir skattalegir hvatar og lögfestir nýir til að styrkja starfsemi þriðja geirans, m.a. íþróttafélög, björgunarsveitir, góðgerðarfélög og mannúðarsamtök. Horfa má til þessara laga og huga að því hvort laun til íþróttafólks frá launagreiðanda gætu t.d. verið skilgreind með svipuðum hætti og einstakar gjafir og framlög til lögaðila sem hafa með höndum starfsemi til almannaheilla.

Með því að styðja við keppnis- og afreksíþróttafólk með þessum hætti er jafnframt verið að styðja við lýðheilsu í landinu. Ekki þarf að fjölyrða um hversu mikilvægt það er fyrir okkur sem þjóð að geta státað okkur af fjölbreyttu og efnilegu keppnis- og afreksíþróttafólki. Forvarnagildi íþrótta er ótvírætt og mikilvægt er að börn og ungmenni eigi sér öflugar fyrirmyndir en rannsóknir hafa sýnt fram á að þátttaka í íþróttum hefur m.a. jákvæð áhrif á námsárangur, sjálfsmynd, sjálfsvirðingu, líkamsmynd, heilsu og almenna líðan.

Tillagan er í samræmi við íþróttastefnu stjórnvalda sem lögð var fram árið 2019. Í stefnunni kemur fram að fjárframlög til málaflokksins hafi aukist og nauðsynlegt sé að halda áfram á þeirri braut. Þótt þær hugmyndir sem hér eru lagðar fram sé ekki að finna í stefnunni þá byggjast þær á sömu hugmyndafræði og þar kemur fram. Einn liður í stefnunni snýr að því að stuðningur skólakerfisins við afreksíþróttir sé aukinn og íþróttaæfingar, keppnir og íþróttaafrek séu metin til námseininga í skólakerfinu. Sem liður í þeim aðgerðum er mennta- og menningarmálaráðuneytinu, nú mennta- og barnamálaráðuneyti, falið að hvetja skólastjórnendur til að sýna sveigjanleika gagnvart afreksfólki í íþróttum. Þá segir í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Vinstri grænna, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks að styðja eigi við íþróttahreyfinguna til að jafna stöðu karla og kvenna í íþróttum ásamt því að áfram verði unnið með félagasamtökum að því að efla umgjörð um afreksstarf íþróttafólks þar sem m.a. verði litið til eflingar afreksíþróttasjóðs og ferðajöfnunarsjóðs. Öll miðum við að því að róa í sömu átt.

Flutningsmenn, ásamt þeim sem hér stendur, að þessari tillögu eru eftirtaldir hv. þingmenn: Jóhann Friðrik Friðriksson, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, Stefán Vagn Stefánsson, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Þórarinn Ingi Pétursson, Halla Signý Kristjánsdóttir, Ingibjörg Isaksen og Líneik Anna Sævarsdóttir. Ég vil þakka þingmönnum Framsóknar stuðninginn við þetta mikilvæga mál. Flutningsmenn vilja koma því á framfæri að þeir telja þessa tillögu ekki koma í staðinn fyrir hugmyndir um laun og styrki frá ríkinu til afreksíþróttafólks heldur frekar til stuðnings við þær hugmyndir. Það er mikilvægt að áfram verði unnið að útfærslum á stuðningi ríkisins við afreksíþróttafólk og vonar sá sem hér stendur að þær komi til framkvæmda sem allra fyrst. Annars vona ég að við í þinginu, hv. þingmenn, sýnum vilja okkar til stuðnings við keppnis- og afreksíþróttafólk í verki með því að styðja og samþykkja þessa tillögu.

Virðulegur forseti. Ég trúi því að efnahags- og viðskiptanefnd taki málið til umfjöllunar, kalli eftir umsóknum og nái að fjalla um það þar sem málið kemur fram snemma á þessu þingi. Þá vonast ég eindregið til þess að við fáum málið aftur hingað inn í þingsal í síðari umræðu þegar líður á veturinn. Ég lýk nú máli mínu og legg til að málinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar.