Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 8. fundur,  22. sept. 2022.

skattalegir hvatar vegna launa keppnis- og afreksíþróttafólks.

133. mál
[14:16]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að hér sé gengið til góðs í báðum þeim málum sem hér hafa verið til umræðu og ég styð heils hugar það mál sem hv. þm. Hanna Katrín Friðriksson hefur lagt fram um heildstæða stefnu í íþróttamálum. Það er löngu tímabært að það komist til afgreiðslu hér og ég held að það fari ágætlega saman við það sem hv. þm. Ágúst Bjarni Garðarsson er hér að tala um. Þetta er afmarkað svið og minnir mig dálítið á baráttu nafna hans, Ágústs Einarssonar, hér fyrir mörgum árum fyrir því að við fengjum kannski örlitla skattalega hvata fyrir fyrirtæki til að styðja við menningarstarf, líknarstarf og slíkt. Það gekk eftir í smáum en nokkuð markvissum skrefum. Ég tel að þetta sé náskylt mál. Þetta er nú ein af forsendum þess t.d. í Bandaríkjunum að menn geti stundað íþróttir sem atvinnumenn og náð árangri. Það sama gildir um kvikmyndagerð og margt fleira í þeim efnum. Ég vildi líka, af því að hv. þingmaður er úr Kraganum, óska honum til hamingju með það sem ég vissi ekki fyrr en bara núna fyrir örfáum dögum. Hann er einn af helstu stoðum og styttum þess kraftaverks sem hefur átt sér stað í Bæjarbíói í Hafnarfirði, mikill fylgismaður þess, sem breytti Hafnarfirði úr svefnbæ í menningarbæ þótt ótrúlegt megi virðast. Einn staður með jafn markvissa og glæsilega starfsemi og þar hefur átt sér stað undanfarin ár hefur gjörbreytt ásýnd bæjarfélagsins, míns gamla heimabæjar. Að styðja við það með svo glæsilegum hætti ber að lofa og þakka (Forseti hringir.) og ég óska þingmanninum til hamingju með það, ekki síður en það sem ég nefndi áðan. Megi það vel ganga eftir.