Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 8. fundur,  22. sept. 2022.

efling félagslega hluta fiskveiðistjórnarkerfisins.

10. mál
[14:41]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Bjarna Jónssyni fyrir þessa prýðilegu þingsályktunartillögu. Verandi nýliði hér á þinginu er maður að átta sig betur og betur á því hvernig ferlið er í lagasmíðunum. Ég hef verið í annars konar lagasmíðum í gegnum ævina og stundum verður til ágreiningur um höfundarrétt, hver samdi hvaða viðlag eða hvaða vers, en þegar upp er staðið skiptir öllu að lögin verði góð. Ég held að hér hafi hv. þingmaður brugðist vel við þeirri undarlegu stöðu sem kom upp við upphaf þingsins þegar svo virtist sem Vinstri grænir ætluðu virkilega að vega að strandveiðisjómönnum. Hv. varaþingmaður, Lilja Rafney Magnúsdóttir, brást ókvæða við og ýmsir fleiri. Það var kannski eitthvað sem þurfti að leiðrétta og rétta kúrsinn af með. Það held ég að hv. þingmaður sé að gera.

Hitt sem hv. þm. Björn Leví Gunnarsson vék hér að er auðvitað yfirstandandi vinna sem er gríðarlega yfirgripsmikil og tímafrek og ég vænti ekki neinnar niðurstöðu þeirrar vinnu fyrr en í fyrsta lagi á næsta ári, jafnvel þarnæsta. Þetta er gott mál sem er bara full ástæða til að taka til afgreiðslu og klára. Svo kemur stóra myndin í fyllingu tímans. Ég óska hv. þingmanni til hamingju með þessa þingsályktunartillögu og óska honum velfarnaðar og styð heils hugar það sem lagt hefur verið fram.